Réttlætir lögbrot ráðuneytisins

Samkvæmt grunnskólalögum ber menntamálaráðherra skylda til þess að skila Alþingi skýrslu um málefni grunnskólanna á þriggja ára fresti. Samkvæmt því hefði þingið átt að fá slíka skýrslu í hendur árið 2022. Það sama ár hét ráðuneytið því að skýrslan myndi líta dagsins ljós innan tíðar. Enn bólar ekkert á henni.

Umboðsmaður barna kvartar sárann

Hefur Umboðsmaður barna kallað ítrekað eftir skýrslunni og hefur í nýlegu bréfi til ráðuneytisins snuprað það fyrir fáfengileg svör varðandi málið.

Ásmundur Einar Daðason, ráðherra málaflokksins frá árinu 2021 situr fyrir svörum í nýjasta þætti Spursmála. Hann segir að tafirnar sem orðið hafa á upplýsingagjöf til þingsins skýrist af því að ráðuneytið hafi lagt áherslu á önnur mál og mikilvægari. Hins vegar sé skýrslan væntanleg inn í þingið nú í haust.

Urðu um þetta mál nokkuð snörp orðaskipti í þættinum. Má sjá þau í spilaranum hér að ofan en einnig má rekja þau í textanum sem hér fylgir að neðan.

Erna Kristín Blöndal er ráðuneytisstjóri í Mennta- og barnamálaráðuneytinu. Hún …
Erna Kristín Blöndal er ráðuneytisstjóri í Mennta- og barnamálaráðuneytinu. Hún var skipuð 2022, sama ár og ráðuneytið hét þinginu að skila lögbundinni skýrslu um starfsemi grunnskólanna. Enn er þessi skýrsla ekki komin fram. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Sporin hræða

Þú segir að þetta verði innleitt 2025 [nýr matsferill í grunnskólastarfi].

„Ja, við erum að gera ráð fyrir því í lagafrumvarpinu, að lagaskyldan verði þannig.“

Þið eruð að gera ráð fyrir því. Ég ætla að leyfa mér að efast um það að það takist, bæði vegna þess hvernig bæði forstöðumaður þessarar stofnunar talar og hvernig þið hafið talað og aðeins breytt um áherslur hér bara síðustu vikur í tengslum við umræður sem efnt var til hér á síðum Morgunblaðsins. Og það er annað sem vekur mér ugg í brjósti yfir þessu og það er mál sem tengist þessu að nokkru leyti og varðar skýrslu um framgang skólastarfs í grunnskólum samkvæmt lögum númer 91 frá 2008. Þessi skýrsla var síðast lögð fram 2018-2019 fyrir skólaárin 2010-2016. Það er að verða kominn áratugur síðan þingið hefur fengið einhverja yfirsýn yfir stöðu grunnskólans. Umboðsmaður barna kallaði eftir því að þessi skýrsla yrði birt fyrir síðustu ár. Það gerði hann 13. apríl 2022. Þið sögðuð í svari þá, þann 3. maí 2022, að fyrir lok þess árs yrði skýrslan lögð fram fyrir árin 2017-2021. Þessi skýrsla er ekki enn komin fram og er þetta þó lögbundin skylda á ráðuneytinu. Hvað er í gangi inni í stofnuninni?

„Til þess að fjalla um þetta þá vil ég bara segja það að við erum búin að fara yfir verkefni, stór frumvörp sem eru að koma inn í þingið, við erum búin að fara yfir endurskipulagningu stofnunar, við erum búin að fara yfir endurskipulagningu ráðuneytisins. Ég hef lagt áherslu á það í mínum störfum að við eigum að gera allt sem við getum til þess að keyra þau mál áfram, þau verkefni sem við erum að vinna að sem sannarlega tengjast breytingum á skólastarfinu.“

Þetta varðar upplýsingaskyldu gagnvart Alþingi Íslendinga.

„Já ég ætla svo að svara þessu. Það hefur haft áhrif, meðal annars á framgang ýmissa annarra mála. Auðvitað eiga ráðuneyti að standa sig þegar kemur að svona löguðu. Sem betur fer erum við komin á svona betri stað með það og þessi grunnskólaskýrsla er væntanleg inn í þingið á fyrstu misserum. En þó vil ég líka segja um þetta að það hefur ekki orðið meiri dráttur á þessum skýrsluskilum en gengur og gerist og gerst hefur í gegnum tíðina. Þannig að við höfum verið að keyra málin áfram, það sannarlega hefur tekið í þessar breytingar sem við höfum verið að vinna að, en...“

Lögin kveða á um, þessi lög frá 2008 kveða á um, og það er lagaskylda, að þið skilið þessari skýrslu til þingsins. Ráðuneytið er búið að brjóta lög.

„Ja, þessi skýrsla er væntanleg inn til þingsins.“

En þetta er lögbrot.

„Þessi skýrsla er væntanleg inn til þingsins núna á fyrstu misserum þessa haustþings.“

Ásmundur Einar Daðason situr fyrir svörum í Spursmálum að þessu …
Ásmundur Einar Daðason situr fyrir svörum í Spursmálum að þessu sinni. mbl.is/María Matthíasdóttir

Ekkert bólar á loforði frá 2022

Hún átti að koma 2022. Við munum ekki einu sinni hvar við vorum 2022.

„En, Stefán, það er mikilvægt að skila skýrslum. Það er mikilvægt að ráðuneytið standi sig. En það skiptir líka máli að koma aðgerðum áfram. Og ég hef lagt áherslu á það að við keyrum aðgerðir áfram í íslensku menntakerfi, stöndum okkur í atriðum sem þarf að gera, eins og skýrsluskil og ég hef sagt að við eigum að bæta okkur þegar kemur að því. Þessi skýrsla er væntanleg inn til þingsins á fyrstu misserum þessa haustþings og það verður gaman að ræða hana þá.“

Ef ég er tekinn fyrir of hraðan akstur á Reykjanesbrautinni, á ég þá að svara því þannig að maður eigi að reyna að standa skil á umferðarlöggjöfinni.

„Nei, en ég er að segja þér að þessi skýrsla er væntanleg inn til þingsins, á fyrstu dögum, á fyrstu misserum þessa haustþings.“

Ég nefni þetta einfaldlega vegna þess að þið segið að þessi matsferill verði kominn á 2025. Miðað við svona virðingu ykkar við tímamörk í þessari mikilvægu upplýsingagjöf til löggjafarvaldsins, fjárveitingarvaldsins, þá hljóta menn að spyrja sig hvort þetta séu raunhæfar tímasetningar.

„Ja það er þannig að ég held að sá kraftur sem við erum með núna í matsferlinum og raunar í öðrum málum, við vorum að kynna nýtt frumvarp um námsgögn líka. Ég held að það sé alveg ljóst að krafturinn sem er kominn í þessi mál, í nýrri stofnun í samstarfi ólíkra aðila að við eigum og ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að tryggja að við getum fengið matsferilinn til þess að fara af stað næsta haust enda verði öll undirbúningsvinna, gagnagrunnar og annað sem því tilheyrir tilbúnir á þeim tíma.“

Viðtalið við Ásmund Einar má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert