Samfélag í sorg og áfallið mikið

Norðfjarðarkirkja á Neskaupsstað.
Norðfjarðarkirkja á Neskaupsstað. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Hér er samfélag í sorg. Nú þurfum við að gera okkar besta til að þess að ná utan um fólk hér sem á um sárt að binda og þarf hjálp,“ segir sr. Benjamín Hrafn Böðvarsson, prestur í Neskaupstað, í samtali við Morgunblaðið. Eftir voveiflega atburði þar í bæ á fimmtudag, þegar eldri hjón fundust látin, og andlát ungs manns úr bænum sem varð fyrir voðaskoti þegar hann var á gæsaveiðum á öræfum hefur kirkjan sinnt margvíslegu sálgæslustarfi í samfélaginu eystra.

Minningarstund um unga manninn var í Neskaupstað á fimmtudagskvöld. Þar var til staðar fagfólk í áfallahjálp frá Heilbrigðisstofnun Austurlands og Rauða krossinum. Sveitarfélagið Fjarðabyggð og starfsfólk þess hefur einnig komið að málum.

Áfallamiðstöð áfram opin

Í gær var í félagsheimilinu Egilsbúð í Neskaupstað opnuð áfallamiðstöð þar sem fólk gat komið og fengið samtal og sálrænan stuðning. Miðstöðin verður opin í dag, laugardag, og á morgun, milli kl. 11 og 17.

Ekki hefur verið ákveðið hvort hjónanna sem létust verður minnst með samveru í kirkjunni eða öðru móti. „Þessi atvik síðustu daga eru mikið áfall fyrir allt samfélagið hér, svo sem aðstandendur hjónanna sem létust og þeirra stóru fjölskyldu,“ segir sr. Benjamín Hrafn.

Maðurinn sem grunaður er um að hafa orðið hjónunum í Neskaupstað að bana var í gær úrskurðaður í vikugæsluvarðhald og einangrun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert