Þegar Íslendingar eru í landvinningum erlendis veltir maður því stundum fyrir sér hver áhrifin séu fyrir land og þjóð. Ef íslenskur listamaður eða íþróttamaður nýtur hylli erlendis, felur það sjálfkrafa í sér að aðdáendur viðkomandi vilji vita meira um Ísland?
Ekki er skynsamlegt að alhæfa um of í þeim efnum en nú er í það minnsta enskur maður, Max Naylor að nafni, að vinna íslensk-enska orðabók fyrir Árnastofnun. Hann var ekki með neinar tengingar við Ísland en áhuginn á Íslandi kviknaði við að hlusta á hljómsveitina Sigur Rós.
Max Naylor sest niður með mér í nýjum húsakynnum Árnastofnunar á gamla Melavellinum en hann er hér í stuttri heimsókn vinnu sinnar vegna. Blaðamanni er óhætt að nota fyrra nafnið í viðtalinu þar sem Max er orðinn íslenskur ríkisborgari. Hann er búsettur erlendis en segir þann áfanga hafa hjálpað sér mjög eftir Brexit, þar sem flest sem hann starfar við tengist Íslandi. Hann kenndi til að mynda íslensku í Edinborgarháskóla í Skotlandi um tíma.
Max ólst upp á Essex-svæðinu á Englandi og velti Íslandi skiljanlega lítið fyrir sér eða þar til hann heyrði í Sigur Rós sem þá var farin að vekja athygli bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.
„Ég kynntist íslensku í gegnum tónlist en á þeim tíma var Sigur Rós í útrás. Mér fannst þetta vera furðulegt tungumál en langaði að skilja textana. Ég hafði lært frönsku og ætlaði mér að fara í frönskunám í háskóla. Ég tengdi hins vegar ekki við franska menningu og eftir að hafa lært meira um Ísland, landið og menninguna, þá ákvað ég að hætta við frönskuna og fara yfir í íslensku,“ rifjar Max upp en hann lærði íslensku í hinum virta UCL-háskóla í London.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu á fimmtudag