Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af manni sem var við einhvers konar æfingar með geislasverð.
Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að maðurinn hafi valdið skelfingu gangandi vegfarenda. Lögregla fór á vettvang og ræddi við manninn. Er hann sagður hafa lofað því að finna æfingum sínum betri stað.
Alls voru 61 mál sem lögregla hafði í sinni málaskrá að því er fram kemur í tilkynningu.
Meðal annars var lögregla send með forgandi að verslun þar sem starfsmenn höfðu mann í tökum eftir búðarþjófnað. Þjófurinn er sagður hafa bitið starfsmenn til blóðs í atgangnum. Í tilkynningu er maðurinn sagður hafa verið í í verulega annarlegu ástandi og var vistaður í fangaklefa þar til hægt verður að ræða við hann.
Þá var tilkynnt um þjófnað í verslun en þar hafði aðili tekið tvær úlpur í mátunarklefa, skilað síðan annarri og hlaupið á brott með hina.