Þrjú hús rýmd vegna aurskriðu á Húsavík

Á mynd sem fréttaritari mbl.is á Húsavík tók í morgun …
Á mynd sem fréttaritari mbl.is á Húsavík tók í morgun má enn sjá leifar af drullu á veginum að Skálabrekku. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Rýma þurfti þrjú hús við Skálabrekku á Húsavík í nótt vegna aurskriðu. Mikil drulla rann fram úr fjallshlíðinni en skriður eru ekki algengar á svæðinu.

Viðbragðsaðilum barst tilkynning um aurskriðuna um miðnætti í gærkvöldi, föstudag. Mikið rigningarveður var á svæðinu sem gerði það að verkum að mikið vatn rann niður Skálabrekku, sem stendur við götu að sama nafni, í norðaustanverðum bænum.

„Þetta vatn sem var að renna þarna niður var að taka með sér mikinn jarðveg,“ segir Kristján Ingi Jónsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á Húsavík, í samtali við mbl.is.

„Flaumurinn virtist mest lenda á þessu eina húsi sem varð mest fyrir barðinu á þessu,“ bætir hann við en þegar viðbragðsaðila bar að garði hafi þykkt leirlag borist upp að einu húsi að Skálabrekku og runnið sitt hvoru megin við það. „Og farin að leggja leirblöndudrulla inn í húsið líka,“ segir hann.

Þá var björgunarsveitin Garðar á Húsavík einnig kölluð til vegna skriðunnar, að sögn Birgis Mikaelssonar sveitarformanns.

Jarðvegurinn „vatnsósa“ 

Ákveðið var í samráði við lögreglu, að rýma húsið að Skálabrekku og tvö önnur sem standa hvort sínum megin við það.

„[Húsin voru rýmd] af því að jarðvegurinn var svo þungur og vatnssósa. Þannig að ef eitthvað færi af stað væri ekki neinn í hættu ef það gerðist í nótt – ef gróðurþekjan losnaði og færi að skríða af stað,“ útskýrir Kristján.

Slökkviliðsmenn sáu um að hreinsa vatn úr húsinu á meðan gröfumenn voru fengnir í að grafa rásir meðfram því til að minnka vatnsálag. Þessi vinna stóð yfir til klukkan 3 um nótt.

Komi Húsvíkingum spánskt fyrir sjónir

Spurður hvort aurskriður sjáist oft á Húsavík svarar Kristján neitandi, en tekur fram að hann hafi vissulega ekki búið lengi í bænum.

Kristjáni skilst þó að einn ábúandi við Skálabrekku hafi verið varaður við mögulegri skriðuhættu þegar hann hafði í hyggju að reisa hús sitt við götuna.

„En hann mundi ekki eftir því sjálfur að hafa upplifað eitthvað eins og ástandið var þarna í gær,“ segir Kristján.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert