16 ára strákur handtekinn með hníf

Lögregla sinnti ýmsum verkefnum í gær og í nótt.
Lögregla sinnti ýmsum verkefnum í gær og í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók 16 ára strák með hníf í miðborg Reykjavíkur um kl. 18 í gær. Í dagbók lögreglu segir að hann hafi verið undir töluverðum áhrifum áfengis. Barnavernd hafi komið að málinu og strákurinn vistaður í viðeigandi úrræði.

Þá hafði sama lögreglustöð, sem sinnir verkefnum í stórum hluta borgarinnar og á Seltjarnarnesi, afskipti af manni og konu vegna sölu fíkniefna, vopnalagabroti og akstri undir áhrifum fíkniefna.

Ætluðu að tjalda á hringtorgi

Lögreglustöð tvö, sem sinnir verkefnum í Hafnarfirði og Garðabæ, hafði afskipti af steggjunarhópi sem hafði farið á hringtorg og ætlað að tjalda þar. Lögregla bað þá að færa athöfnina annað. 

Lögreglustöð þrjú, sem sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti, fjarlægði konu af heimili þar sem hún var óvelkomin. Hún streittist á móti lögreglu og þurfti því að beita handjárnum, en þá hrækti konan á lögreglumenn. Var hún vistuð í fangageymslu.

Sama lögreglustöð fann fíkniefni í heimahúsi vegna rannsóknar á öðru máli tengdu húsráðanda. Hann var laus eftir skýrslutöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert