25 í hópnum: Grafa á leið á vettvang

Sveinn Kristján Rúnarsson
Sveinn Kristján Rúnarsson mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

25 manns voru á ferð í hópi sem lenti í því að íshellir féll saman þegar verið var að skoða hellinn á Breiðamerkurjökli í dag. Hluti hópsins varð undir þegar hellirinn féll saman. 

„Þetta virðist hafa verið vegghrun,“ segir Sveinn.   

„Björgunaraðilar eru að vinna á vettvangi í þessum töluðu orðum. En það þarf að ryðja ís frá og vinnuvél á leiðinni á vettvang,“ segir Sveinn.

mbl.is 

Nokkur tími í gröfuna 

Vinnuvélin er grafa og að sögn Sveins verður að koma í ljós hvernig gengur að koma henni að íshellinum sem staðsettur er vestan við jökulsárlón. Enn er „einhver tími í að hún komi þangað,“ segir Sveinn. 

Hann segir hópinn í íshellinum blandaðan og komi til að mynda ekki frá einu fyrirtæki sem býður upp á ferðir á Breiðamerkurjökul. 

„Þetta er svolítið blandaður hópur og við erum að við að okkur upplýsinga um það,“ segir Sveinn. 

Slasað fólk í hópnum 

Fólk í hópnum er slasað. Sveinn segir hins vegar ekki liggja fyrir upplýsingar um það hve margir það eru sem eru slasaðir. 

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir að þeir björgunarsveitarmenn sem séu komnir á vettvang séu að að skoða aðstæður.

„Fyrst og fremst eru menn að skoða aðstæður og að meta hvað það er sem þarf til þess að björgunaraðgerðir geti gengið sem best. Viðbrögðin eru þau að það sé betra að hafa meira en minna og betra að nota ekki en vanta hluti á vettvangi,“ segir Jón Þór.

Kort/mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert