Banaslys á Breiðamerkurjökli: Leit frestað

Banaslys varð á Breiðamerkurjökli í dag.
Banaslys varð á Breiðamerkurjökli í dag. Ljósmynd/Rut Gunnarsdóttir

Einn er látinn og tveggja er saknað eftir að ísveggur gaf sig á Breiðamerkurjökli í dag. Einn var fluttur alvarlega slasaður á sjúkrahús í Reykjavík og er hann úr lífshættu. 

Lögreglan á Suðurlandi greinir frá andlátinu í tilkynningu.

Leit á jöklinum hefur verið frestað en haldið verður áfram að nýju í birtingu í fyrramálið. 

„Aðstæður við leitina eru erfiðar og myrkur er nú skollið á. Ekki er talið forsvaranlegt vegna hættu á vettvangi að halda leit áfram í nótt. Leit hefur því verið frestað og verður henni fram haldið að nýju í birtingu í fyrramálið,“ segir í tilkynningunni. 

25 manna hópur var á jöklinum

Tilkynnt var um slysið kl. 15 í dag og var hópslysaáætlun almannavarna virkjuð. Ísveggur gaf sig er 25 erlendir ferðamenn voru í skipulagðri íshellaferð á jöklinum. Fjórir lentu undir ísfarginu. 

Tveimur var bjargað undan ísfarginu, var annar þeirra úrskurðaður látinn á staðnum en hinn sendur suður til Reykjavíkur á sjúkrahús. Er ástand hans stöðugt. 

Ferðamennirnir eru af nokkrum þjóðernum. 

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru sendar á staðinn auk einnar þyrlu frá danska sjóhernum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert