Danski sjóherinn réttir björgunarfólki hjálparhönd

Þyrla danska sjóhersins fyrir utan flugskýli Landhelgisgæslunnar.
Þyrla danska sjóhersins fyrir utan flugskýli Landhelgisgæslunnar. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Landhelgisgæslan hefur fengið hjálp danska sjóhersins við að flytja búnað frá Reykjavík að Breiðamerkurjökuli þar sem íshellir hrundi yfir göngufólk fyrr í dag. Frakkar eru einnig reiðubúnir að leggja hönd á plóg sé þess þörf.

25 manna hóp­ur var í skipu­lagðri ferð um Breiðamerk­ur­jök­ul með far­ar­stjórn í dag þegar ís­hell­ir hrundi. Fjór­ir þeirra lentu und­ir ís­farginu en búið er að koma tveimur undan. Tveggja er enn leitað. Að minnsta kosti þrír eru tald­ir al­var­lega slasaðir eft­ir að ís­hell­ir­inn hrundi.

Svo virðist sem vegg­ur hellsins hafi hrunið að sögn lög­reglu. Til­kynn­ing barst viðbragðsaðilum snemma á fjórða tím­an­um í dag.

Frakkarnir voru reiðubúnir að hjálpa

Um­fangs­mikl­ar björg­un­araðgerðir hafa staðið yfir síðan upp úr 15 í dag.

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru ræstar út.

„Síðan óskuðum við eftir því við danska sjóherinn hvort hægt væri að fá þyrlu frá Vædderen, danska varðskipinu, til að flytja mannskap og búnað frá Reykjavík,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is.

„Sú þyrla er bara á leiðinni á staðinn,“ bætir hann við. 

Og til vonar og vara leitaði gæslan einnig á náðir fransks herskips sem er hluti af fastaflota Atlantshafsbandalagsins. Skipið er hér á vegum varnaræfingarinnar Norður-Víkings.

„Frakkarnir voru reiðubúnir að aðstoða en það kom ekki til þess að við þurftum á því að halda.“

Einn fluttur til Reykjavíkur

Það er því alls búið að ræsa út þrjár þyrlur vegna slyssins, tvær frá gæslunni og eina frá danska sjóhernum.

Einn af göngu­mönn­un­um sem slösuðust hef­ur verið flutt­ur með þyrlu til Hafn­ar. Þaðan var hann flutt­ur með sjúkra­flugi á Foss­vogs­spít­ala í Reykja­vík. Sá er tal­inn al­var­lega slasaður.

Fleiri slasaðir hafa ekki verið flutt­ir með þyrlu að svo stöddu. 

Slysið er talið grafal­var­legt. Unnið er að björg­un­ar­störf­um á vett­vangi. Ekki er vitað um ástand á fólki á þess­ari stundu, að sögn lög­reglu.

Al­manna­varn­ir hafa virkjað hóp­slysa­áætl­un, opnað sam­hæf­ing­ar­stöð auk þess sem búið er að opna fjölda­hjálp­ar­stöð í Öræf­um.

Viðbúnaður var mikill og eru nú á annað hundrað manns …
Viðbúnaður var mikill og eru nú á annað hundrað manns sem koma að björgunaraðgerðum. Ljósmynd/Rut Gunnarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert