„Ég vil bara að þetta hætti“

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins. Eggert Jóhannesson

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, segir fulltrúa Flokks fólksins ítrekað hafa þurft að þola óásættanlega framkomu frá fulltrúum meirihlutans í borgarstjórn. Kolbrún segist oft fá kvíðahnút í magann þegar hún er innan um suma borgarfulltrúa.

Full­trúi Sósí­al­ista­flokks­ins hef­ur sent forseta borgarstjórnar er­indi þar sem kvartað er und­an fram­komu Hjálm­ars Sveins­son­ar, borg­ar­full­trúa Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, í garð Kol­brún­ar. Í því seg­ir að á fundi um­hverf­is- og skipu­lags­ráðs í ág­úst hafi Hjálm­ar veist að Kol­brúnu á „ein­stak­lega ræt­inn og ómak­leg­an hátt“.

„Hjálm­ari blöskraði fjöldi til­lagna og fyr­ir­spurna frá Flokki fólks­ins sem hann gerði at­huga­semd við með því að hæðast að og gera lítið úr borg­ar­full­trúa, vara­borg­ar­full­trúa, flokkn­um og kjós­end­um hans og þetta var langt í frá fyrsta skiptið sem hann not­ar niður­lægj­andi svip, tón og orðfæri við minni­hlut­ann svo eft­ir er tekið,“ seg­ir meðal annars í er­ind­inu.

Buguð eftir fundinn

Varaborgarfulltrúi Kolbrúnar, Helga Þórðardóttir, sat umræddan fund fyrir Kolbrúnu.

„Hún var gjörsamlega buguð eftir þennan fund. Mér þykir það mjög leiðinlegt,“ segir Kolbrún í samtali við mbl.is. 

Kolbrún og Helga saman í ráðhúsinu.
Kolbrún og Helga saman í ráðhúsinu. Ljósmynd/Aðsend

Kolbrún segist vera afkastasöm og vissulega spyrja um mörg mál í borgarstjórn, en bendir jafnframt á að það sé nú starf borgarfulltrúa. 

„Það hefur farið rosalega fyrir brjóstið á sumum og ég hef verið tekin í gegn fyrir að vera með svona mikið af málum,“ segir Kolbrún. 

Hún segir fulltrúa meirihlutans í borgarstjórn ekki vilja fá mál frá þeim sem eru í minnihluta.

„Meirihlutinn vill ekki fá mál frá minnihlutanum. Þetta er voða skrítið því að auðvitað gengur vinnan í borgarstjórn út á það að við séum að reyna að laga og bæta þjónustu við borgarbúa.“

„Við erum ekki óvinir“

Kolbrún segir óásættanlega framkomu fulltrúa meirihlutans í garð fulltrúa Flokks fólksins ekki nýja af nálinni. Hún segir þó ýmislegt hafa batnað frá síðasta kjörtímabili.

„Við erum ekki óvinir. Það má ekki halda að það sé stríðsástand þarna alla daga. Það er alls ekki þannig,“ segir Kolbrún.

Hún segist þó oft fá smá kvíðahnút í magann þegar hún er innan um suma borgarfulltrúa. Hennar ósk er að hægt sé að eiga góða fundi og að ljót framkoma í garð hennar og annarra fulltrúa Flokks fólksins hætti.

„Ég vil bara að þetta hætti. Það væri æðislegt að eiga bara alltaf hlýjan og góðan fund. Þau skilji að þetta sé okkar vinna. Enda eigum við að vinna fyrir okkar launum, ekki bara að sitja á rassgatinu og glápa út í loftið.“

Sama hvað heldur hún sinni vinnu áfram. 

„Ég hef aldrei látið neitt svona flæma mig á brott. Ég hef aldrei manneskja verið þannig manneskja að ég hlaupi í burtu frá hvorki hræðslu né erfiðleikum,“ segir Kolbrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert