Agnar Már Másson
Einn af göngumönnunum sem slösuðust þegar íshellir hrundi í Breiðamerkurjökli fyrr í dag hefur verið fluttur með þyrlu til Hafnar. Þaðan var hann fluttur með sjúkraflugi á Fossvogsspítala í Reykjavík.
Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, staðfestir þetta í samtali við blaðamann mbl.is. Maðurinn er talinn alvarlega slasaður.
Flugvélin hafði þá flogið frá Reykjavík til Hafnar með búnað og birgðir fyrir björgunaraðila. Þegar þyrla gæslunnar lenti á Höfn var hinn slasaði fluttur með flugvélinni til Reykjavíkur og birgðirnar fluttar með þyrlunni að Breiðamerkurjökli, að sögn Ásgeirs.
Fleiri slasaðir hafa ekki verið fluttir með þyrlu að svo stöddu.
25 manna hópur var í skipulagðri ferð um Breiðamerkurjökul með fararstjórn þegar íshellir hrundi og fjórir lentu undir ísfargi. Svo virðist sem veggur hellisins hafi hrunið, að sögn lögreglu. Tilkynning barst viðbragðsaðilum snemma á fjórða tímanum í dag.
Að minnsta kosti þrír eru taldir alvarlega slasaðir eftir að íshellirinn hrundi. Umfangsmiklar björgunaraðgerðir hafa staðið yfir síðan upp úr 15 í dag.
Fjórir lentu undir fargi íshellisins. Tveggja er enn leitað að sögn lögreglu á Suðurlandi en búið er að koma hinum undan farginu og eru þeir báðir alvarlega slasaðir.
Slysið er talið grafalvarlegt. Unnið er að björgunarstörfum á vettvangi. Ekki er vitað um frekara ástand á fólki á þessari stundu, að sögn lögreglu.
Almannavarnir hafa virkjað hópslysaáætlun, opnað samhæfingarstöð auk þess sem búið er að opna fjöldahjálparstöð í Öræfum.