Allir þeir sem lentu undir ísfargi á Breiðamerkurjökli um miðjan dag í dag voru ferðamenn. Fjórir urðu undir, einn var fluttur til Reykjavíkur með sjúkraflugi og er hann úr lífshættu. Tveggja er hins vegar enn leitað.
Þetta staðfestir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi.
Að sögn hans eru þeir sem lentu undir ísfarginu af ólíkum þjóðernum. „Þetta var fólk sem keypti sig í opna ferð og var í tveggja til fjögurra manna hópum,“ segir Sveinn Kristján.
25 manns í voru í íshellaferð á Breiðamerkurjökli þegar ósköpin dundu yfir.
Sveinn segir ekki búið að taka ákvörðun um það hversu lengi verður leitað fram í nóttina.
„Leit stendur enn yfir og verður eitthvað áfram. Það er ekki búið að taka lokaákvörðun um það hvenær við munum ljúka henni í dag,“ segir Sveinn Kristján.
„Það verða settar upp vinnubúðir í nótt og einhverjir munu sinna einhverjum verkefnum en við þurfum að sjá til með leitina sjálfa,“ segir Sveinn Kristján.
Björgunarsveitir vinna sem stendur hörðum höndum við að moka ís í gili eða farvegi þar sem ísveggur hrundi yfir fólkið.