Agnar Már Másson
Viðbragðsaðilar leita að tveimur sem eru enn fastir undir fargi íshellis sem hrundi í Breiðamerkurjökli fyrr í dag. Grafa er á leiðinni á vettvang til að ryðja ís frá hellinum.
Tveimur til viðbótar hefur verið komið undan farginu en þeir eru báðir alvarlega slasaðir.
25 manna hópur var í skipulagðri ferð um svæðið með fararstjórn þegar íshellir hrundi og fjórir lentu undir ísfargi. Tilkynning barst viðbragðsaðilum snemma á fjórða tímanum í dag.
„Fjórir aðilar urðu fyrir ísfargi, nú þegar hefur tveimur aðilum verið náð undan ísnum og eru þeir alvarlega slasaðir. Enn er verið að leita að tveimur aðilum sem eru fastir í íshellinum,“ skrifar lögreglan á Suðurlandi á Facebook.
Slysið er talið grafalvarlegt. Unnið er að björgunarstörfum á vettvangi. Ekki er vitað um frekara ástand á fólki á þessari stundu, að sögn lögreglu.
Almannavarnir hafa virkjað hópslysaáætlun, opnað samhæfingarstöð auk þess sem búið er að opna fjöldahjálparstöð í Öræfum.
Veistu meira? Þú getur sent okkur ábendingar á tölvupóstfangið frettir@mbl.is
Fréttin hefur verið uppfærð.