Nokkrir eru slasaðir eftir að íshellir í Breiðamerkurjökli hrundi eftir hádegi í dag. Umfangsmiklar björgunaraðgerðir standa nú yfir.
Einhverjir í hópnum eru fastir inni í hellinum en ekki allir. Stærð hópsins liggur ekki fyrir.
Tilkynnt var um slysið um kl. 15 í dag og hefur fjöldi viðbragðsaðila verið ræstur út. Viðbragðsaðilar eru mættir á vettvang og meta nú aðstæður.
Yfirlögregluþjónn á Suðurlandi segir að einhverjir séu slasaðir.
„Það eru einhverjir fastir. Við erum ekki alveg með endanlega tölu. Það eru einhverjir fastir og einhverjir slasaðir,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.
Hópslysaáætlun almannavarnadeildar hefur verið virkjuð vegna slyssins, að sögn upplýsingafulltrúa þeirra. Þá hafi samhæfingarstöð einnig verið virkjuð.
Björgunarsveitir frá Höfn, Öræfum og Kirkjubæjarklaustri hafa verið ræstar út, að sögn upplýsingafulltrúa Landsbjarga.
Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa verið kallaðar út vegna slyssins, segir upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar í samtali við mbl.is. Fyrri þyrlunnar sé að vænta að vettvangi innan skamms.
Sjúkraflutningabílar og lögreglubílar hafa einnig verið kallaðir út en erfitt er að nálgast vettvang að sögn viðbragðsaðila.
Veistu meira? Þú getur sent okkur ábendingar á tölvupóstfangið frettir@mbl.is
Fréttin hefur verið uppfærð.