Fólk fast í íshelli sem hrundi í Breiðamerkurjökli

Breiðamerk­ur­jök­ull geng­ur niður úr Vatna­jökli og Öræfa­jökli til suðurs og …
Breiðamerk­ur­jök­ull geng­ur niður úr Vatna­jökli og Öræfa­jökli til suðurs og suðaust­urs. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Nokkrir eru slasaðir eftir að íshellir í Breiðamerkurjökli hrundi eftir hádegi í dag. Umfangsmiklar björgunaraðgerðir standa nú yfir.

Einhverjir í hópnum eru fastir inni í hellinum en ekki allir. Stærð hópsins liggur ekki fyrir. 

Tilkynnt var um slysið um kl. 15 í dag og hef­ur fjöldi viðbragðsaðila verið ræstur út. Viðbragðsaðilar eru mættir á vettvang og meta nú aðstæður.

Hægt er að smella á mynd­ina til að fá upp …
Hægt er að smella á mynd­ina til að fá upp gagn­virkt kort. Kort

Hópslysaáætlun virkjuð

Yfirlögregluþjónn á Suðurlandi segir að einhverjir séu slasaðir.

„Það eru einhverjir fastir. Við erum ekki alveg með endanlega tölu. Það eru einhverjir fastir og einhverjir slasaðir,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.

Hópslysaáætlun almannavarnadeildar hefur verið virkjuð vegna slyssins, að sögn upplýsingafulltrúa þeirra. Þá hafi samhæfingarstöð einnig verið virkjuð.

Tvær þyrlur

Björg­un­ar­sveit­ir frá Höfn, Öræf­um og Kirkju­bæj­arklaustri hafa verið ræst­ar út, að sögn upplýs­inga­full­trúa Lands­bjarga.

Tvær þyrl­ur Land­helg­is­gæsl­unn­ar hafa verið kallaðar út vegna slyssins, seg­ir upplýsingafulltrúi Land­helg­isgæsl­unn­ar í sam­tali við mbl.is. Fyrri þyrlunn­ar sé að vænta að vett­vangi innan skamms.

Sjúkra­flutn­inga­bíl­ar og lög­reglu­bíl­ar hafa einnig verið kallaðir út en erfitt er að nálgast vettvang að sögn viðbragðsaðila.

Veistu meira? Þú get­ur sent okk­ur ábend­ing­ar á tölvu­póst­fangið frett­ir@mbl.is

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka