Fýlusprengja „eyðilagði stemninguna“

Ungt fólk stappaði bílastæðakjallara Grósku á Menningarnótt en þar stigu …
Ungt fólk stappaði bílastæðakjallara Grósku á Menningarnótt en þar stigu margir vinsælir tónlistarmenn á stokk, m.a. ClubDub og Birnir. mbl.is/Agnar

Miklar æsingar urðu á tónleikum í bílastæðakjallara Grósku í gær eftir að gestur sprengdi fýlusprengju í fólksfjöldanum og gaf tónleikagestum kláða í augun.

Tónleikar voru haldnir víða í miðborginni í gær, m.a. í bílastæðakjallara Grósku við Háskóla Íslands en þeim voru hluti af viðburðinum RVK X. Þeir hófust kl. 23 og stóðu yfir fram eftir nóttu.

En stemningin dó að miklu leyti um leið og einhvers konar efni var hleypt inn í mannfjöldann sem gerði það að verkum að fólk fann fyrir kláða í augum.

Uppfært: Í upprunalegri frétt segja sjónarvottar að piparúða hafi verið beitt. Dyraverðir segja að um fýlusprengju hafi verið að ræða.

„Allt í einu byrja allir að hlaupa út“

21 árs kona sem var gestur á tónleikunum ræddi við mbl.is og lýsir aðstæðum þegar úðanum var beitt. Hún segir að lágt hafi verið til lofts í kjallaranum og dimmt. Atvikið gerist rétt upp úr kl. 2, um svipað leyti og rapparinn Birnir stóð á sviðinu.

„Síðan byrjar maður allt í einu að finna einhverja skrítna tilfinningu í hálsinum. Og það byrja allir að hósta,“ segir hún en þá virtist einhver hafa beitt piparúða í mannfjöldanum.

„Allt í einu byrja allir að hlaupa út,“ bætir hún við. Reyndar hlupu ekki bókstaflega allir út, að sögn fleiri sjónarvotta sem mbl.is talaði við.

Hún kveðst reyndar sjálf ekki hafa séð úðan með eigin augun en eins og flestir aðrir á svæðinu hafi hún fundið vel fyrir honum.

„Síðan sé ég öryggisverðina labba með strák afsíðis,“ bætir hún við. Drengurinn virtist hafa beitt úðanum að gamni sínu, að sögn konunnar. 

Gestir í áfalli: „Þetta eyðilagði alveg stemninguna“

Aðrir sjónarvotta lýsa því að margir hafi kastað upp vegna piparúðans atvikið – en það kann jú vissulega líka að gerast þegar mikið er drukkið.

Konan segir að gestir á tónleikunum hafi verið í áfalli eftir atvikið.

„Það vissi enginn hvað var að gerast,“ segir tónleikagesturinn. „Maður veit ekkert hvað þetta er nákvæmlega.“

Og svo virtist sem flestir hafi haldið heim eftir að þetta atvik kom upp, þó tónleikarnir væru alls ekkert búnir.

„Þetta eyðilagði alveg stemninguna.“

Ekki piparúði, heldur fýlusprengja

Bjarni Knútsson, hjá Svörtu Perlunni, segir við mbl.is að öryggisverðir hafi fundið pakkningar af fýlusprengjum, eða „fart spray“ eins og stóð á pakkningunum.

Annars hafi viðburðurinn í raun heppnast afar vel. Bjarni segir að partíið hafi haldið áfram eftir æsinginn en bara færst nokkra metra til að forðast lyktina.

Veistu meira? Tókstu myndir eða myndskeið af atvikinu? Endilega hafðu samband við okkur í gegnum frettir@mbl.is eða í síma 669-1200.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert