Gekk fram á virka sprengju við eldgosið

Maður gekk fram á ósprungna sprengju á gossvæðinu í nótt. Hann tilkynnti atvikið til lögreglu sem lét Landhelgisgæsluna vita.

„Við fórum þarna í morgun og eyddum henni,“ segir Jónas Þorvaldsson, yfirmaður séraðgerðasveitar Landhelgisgæslunnar, en ekki var hægt að flytja sprengjuna sökum ástands hennar og hún því sprengd upp.

Í myndskeiðinu hér að ofan má sjá þegar sprengjusveitin sprengdi sprengjuna í morgun.

Allt morandi í sprengjum á svæðinu

Hraunrennsli úr núverandi gosi rennur um Vogaheiði, sem nær frá Litla-Skógfelli að Reykjanesbraut. Svæðið var æfingasvæði bandaríska hersins á árunum 1952-1960. Sprengjan hefur því legið þarna virk í kringum 70 ár. 

Leitað hefur verið á svæðinu allavega þrisvar sinnum áður. Svæðið er gríðarlega stórt og mjög erfitt yfirferðar.

„Sums staðar er nánast varla gangandi þarna þannig að það er mjög erfitt að hreinsa þetta svæði,“ segir Jónas. 

Svæðið var mikið notað af hernum og sprengjubrot um allt sem gerir alla leit með málmleitartækjum erfiða, segir Jónas, og bætir því við að hraunið sé ungt sem einnig hefur áhrif á segulsviðið í jörðinni. Með tímanum grafast sprengjurnar lengra niður í jarðveginn og geta svo komið upp með frostlyftingu.

„Það er ekkert víst að við hefðum séð hana hefðum við leitað fyrir ári síðan," segir Jónas.

Líkt og áður hefur komið fram er svæðið sem um ræðir mengað af sprengjum og viðvörunarskilti allt í kring. 

Fjöldi ferðamanna hefur lagt leið sína að gosstöðvunum undanfarna daga. …
Fjöldi ferðamanna hefur lagt leið sína að gosstöðvunum undanfarna daga. Einn gekk fram á sprengju síðustu nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svokölluð Mortar-sprengja

„Þegar hraunið er komið yfir þá þurfum við litlar áhyggjur að hafa af svæðinu eftir það,“ segir Jónas.

Það sem séraðgerðasveitin hefur mestar áhyggjur af eru sinueldarnir og hvað geti gerst á meðan hraunið rennur yfir svæðið.

Jónas segir tegund sprengjunnar hafa verið svokallaða Mortar sem er sprengja úr sprengjuvörpu. Aðrar tegundir sprengja á svæðinu eru fallbyssukúlur í mismunandi stærðum og litlar eldflaugar. Enda hafi svæðið verið mikið notað af stórskota- og fótgönguliði á sínum tíma.

Að lokum segir Jónas að þeir mæli gegn því að gengið sé á svæðinu. Nú þegar eru merkingar sem segja svæðið hættulegt. Lögreglan á Suðurnesjum stýrir aðgengi að svæðinu auk þess sem björgunarsveitir vakta svæðið.

„Fólk þarf að fara að fyrirmælum lögreglu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert