Hafi endurlífgað stúlku sem var stungin

Blóð er enn á stéttinni við Skúlagötu þar sem þrjú …
Blóð er enn á stéttinni við Skúlagötu þar sem þrjú ungmenni voru stungin í nótt. mbl.is/Ólafur Árdal

Hjúkrunarfræðingur sem átti leið framhjá vettvangi hnífstunguárásar í nótt segist hafa endurlífgað stúlku sem fór í hjartastopp á staðnum.

Þrjú ung­menni voru stung­in við Skúla­götu á Menningarnótt í miðbæ Reykja­vík­ur á tólfta tímanum í gær­kvöldi og er eitt þeirra í lífs­hættu að sögn lögreglu. Seinna um nótt­ina var einn hand­tek­inn á heim­ili sínu grunaður um verknaðinn.

Lögregla hefur enn ekki gefið upp kyn eða aldur brotaþola eða geranda en hefur staðfest að allir séu undir lögaldri.

Mik­ill viðbúnaður var niðri í bæ á Menn­ing­arnótt í gær og margir urðu vitni að árás­inni að sögn lögreglu.

Árásin var gerð við Skúlagötu 4.
Árásin var gerð við Skúlagötu 4. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Allir í sjokki“

Hinn 32 ára Ryan Corcu­era var með fjölskyldu sinni þegar þau gengu fram á fórnarlömb árásarinnar í gærkvöldi. Ryan, filippseyskur að uppruna, er hjúkrunarfræðing­ur á taugadeild Land­spít­al­ans.

„Við sáum stelpu liggjandi á jörðinni, blæðandi. Það voru allir í sjokki, einhver öskrandi, örugglega kærastinn hennar,“ segir Ryan í samtali við mbl.is. Allnokkrir hafi staðið í kring um stúlkuna þegar Ryan skarst í leikinn.

Hjúkrunarfræðingurinn segir stúlkuna hafa litið út fyrir að vera 16-18 ára. Drengur á svipuðum aldri, sem virtist nákominn henni, sat grátandi yfir henni og ein stúlka til viðbótar sat skammt frá, að sögn Ryans.

Stúlkan var flutt á slysadeild og gekkst undir aðgerð í …
Stúlkan var flutt á slysadeild og gekkst undir aðgerð í nótt. Þegar blaðamaður mbl.is ræddi við lögreglu á tólfta tímanum í dag var ungmennið enn í lífshættu. mbl.is/Ólafur Árdal

Hafi farið í hjartastopp 

„Eftir nokkrar sekúndur fór hún í hjartastopp,“ segir hann og lýsir stúlkunni sem fölri. Hún hafi ekki náð að opna augun.

„Það þurfti bara að hefja endurlífgun strax,“ segir hjúkrunarfræðingurinn.

Og það hafi hann gert. Honum hafi tekist að endurlífga stúlkuna sem tók um 2-3 mínútur. Örfáum mínútum síðar mættu viðbragðsaðilar á vettvang. 

Stúlkan var flutt á slysadeild og gekkst undir aðgerð í nótt. Þegar blaðamaður mbl.is ræddi við lögreglu á tólfta tímanum í dag var stúlkan enn í lífshættu.

Ryan segist enn vera í miklu áfalli eftir atvik gærdagsins og kveðst óska stúlkunni og fjölskyldu hennar góðs. Hann segist vona innilega að hún sé á bata vegi. Lögreglan sagði fyrr í dag að stúlkan væri í lífshættu.

Þegar mbl.is leitaði til lögreglu til að spyrja hvort brotaþoli hafi farið í hjartastopp á vettvangi kvaðst Grímur Grímsson hjá miðlægri rannsóknardeild ekki geta tjáð sig um málið að svo stöddu.

Veistu meira? Þú get­ur sent okk­ur ábendingar á tölvupóstfangið frett­ir@mbl.is

Mik­ill viðbúnaður var niðri í bæ á Menn­ing­arnótt í gær …
Mik­ill viðbúnaður var niðri í bæ á Menn­ing­arnótt í gær og margir urðu vitni að stunguárás­inni að sögn lögreglu. mbl.is/Ólafur Árdal
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert