Hafnar öllum ásökunum

Hjálmar Sveinsson er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.
Hjálmar Sveinsson er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. mbl.is/ Ragnar Axelsson

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hafnar ásökunum Ástu Þ. Skjalddal Guðjónsdóttur, áheyrnafulltrúa Sósíalistaflokksins í um­hverf­is- og skipu­lags­ráði Reykjavíkurborgar, um ofbeldi og einelti í garð Kolbrúnar Áslaugar Baldursdóttur, borgarfulltrúa Flokks fólksins.

Ásta hef­ur sent for­sæt­is­nefnd Reykja­vík­ur­borg­ar er­indi þar sem hún kvartar und­an fram­komu Hjálm­ars í garð Kol­brún­ar. Í því seg­ir að á fundi um­hverf­is- og skipu­lags­ráðs í ág­úst hafi Hjálm­ar veist að Kol­brúnu á „ein­stak­lega ræt­inn og ómak­leg­an hátt“. 

„Hjálm­ari blöskraði fjöldi til­lagna og fyr­ir­spurna frá Flokki fólks­ins sem hann gerði at­huga­semd við með því að hæðast að og gera lítið úr borg­ar­full­trúa, vara­borg­ar­full­trúa, flokkn­um og kjós­end­um hans og þetta var langt í frá fyrsta skiptið sem hann not­ar niður­lægj­andi svip, tón og orðfæri við minni­hlut­ann svo eft­ir er tekið,“ seg­ir í er­ind­inu.

Mikill tími fari í að svara Flokki fólksins

Hjálmar segir að á umræddum fundi hafi um 20 fyrirspurnir og tillögur verið lagðar fram af áheyrnafulltrúa Flokk fólksins í ráðinu. 

„Það er rétt að ég gerði athugasemd á fundinum við mjög mikinn fjölda tillagna og fyrirspurna sem að jafnaði berast frá áheyrnafulltrúa Flokks fólksins. Ég geri mér grein fyrir að auðvitað hefur fólk rétt á því. Ég var bara að benda á það að það er margt mikilvægt sem að sviðið þarf að gera hverju sinni og það fer mjög mikill tími í að svara þessu öllu. Þannig að mér finnst þetta vera svolítið úr jafnvægi, þessi endurtekni mikli fjöldi fyrirspurna,“ segir Hjálmar í samtali við mbl.is.

Að öðru leyti segir hann trúnað ríkja yfir því sem að sagt var á fundinum.

„Það er algjörlega rangt“

Kolbrún sagði í samtali við mbl.is í dag að fulltrúar Flokks fólks­ins hafi ít­rekað þurft að þola óá­sætt­an­lega fram­komu frá full­trú­um meiri­hlut­ans í borg­ar­stjórn.

Spurður út í þessar ásakanir segir Hjálmar:

„Ég kannast við þessar ásakanir en ég vísa því algjörlega á bug. Ég ætla ekki að vera með gangkvæmar ásakanir.“

Kolbrún sagði einnig fulltrúa meirihlutans ekki vilja fá mál frá þeim sem eru í minnihluta. Hjálmar segir þetta rangt. 

„Það er algjörlega rangt. Meirihlutinn kannski samþykkir ekki tillögur minnihlutans en það er ekki rétt það sem felst í þessum orðum,“ segir Hjálmar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert