Starfsfólk Hopps kom þremur ungmennum til aðstoðar við Skúlagötu í gærkvöldi eftir að þau höfðu verið stungin. Ein stúlka er enn talin vera í lífshættu.
Þrjú ungmenni voru stungin við Skúlagötu á Menningarnótt í miðbæ Reykjavíkur á tólfta tímanum í gærkvöldi og er eitt þeirra í lífshættu að sögn lögreglu. Seinna um nóttina var einn handtekinn á heimili sínu grunaður um verknaðinn.
Meintur gerandi og brotaþolarnir þrír eru allir undir lögaldri, að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns miðlægrar rannsóknardeildar.
Margir urðu vitni að árásinni og eftirmála hennar, þar á meðal starfsmenn Hopps.
„Starfsfólk okkar var þar staðsett vegna Menningarnætur og voru þau vitni eins og aðrir vegfarendur. Starfsfólkið okkar brást við eftir bestu getu, höfðu samband við neyðarlínu, hlúðu að brotaþolum og voru viðbragðsaðilar snögg[ir] á vettvang,“ segir Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp, í skriflegu svari til mbl.is en Vísir greindi fyrst frá aðkomu Hopp-starfsmannanna.
„Forgangur dagsins er að hlúa að okkar starfsfólki og hugur okkar er fyrst og fremst hjá brotaþolum og aðstandendum þeirra,“ skrifar Sæunn enn fremur en hún tekur einnig fram að fyrirtækið hyggist ekki tjá sig frekar um málið.
Hjúkrunarfræðingur sem átti leið framhjá vettvangi hnífstunguárásar í nótt sagði við mbl.is að hann hafi endurlífgað stúlku sem fór í hjartastopp á staðnum.
Veistu meira? Þú getur sent okkur ábendingar á tölvupóstfangið frettir@mbl.is