Ísveggir lögðust ofan á fólkið: Leita enn tveggja

Frá björgunaraðgerðum í dag.
Frá björgunaraðgerðum í dag. Ljósmynd/Rut Gunnarsdóttir

Nær lagi er að segja að farvegur hafi fallið saman frekar en að tala um að fólk hafi fest inni í íshelli að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurlandi. 

Sveinn fer fyrir aðgerðum lögreglu á Breiðamerkurjökli þar sem enn eru tveir fastir undir ísfargi. Í heild lentu fjórir undir því. Einn hefur verið fluttur suður til Reykjavíkur.

Að sögn hans eru á annað hundrað manns við björgunaraðgerðir. Í fyrstu var talið að íshellir hefði fallið saman en í ljós hefur komið að þó fólk hafi verið í íshellaferð þá sé nær lagi að tala um að fólk hafi verið að smeygja sér á milli íshella eftir íssprungum þegar atvikið átti sér stað. 

Viðbúnaður var mikill og eru nú á annað hundrað manns …
Viðbúnaður var mikill og eru nú á annað hundrað manns sem koma að björgunaraðgerðum. Ljósmynd/Rut Gunnarsdóttir

„Við erum enn að leita að þessum tveimur. Það er réttara að tala um farvegur hafi fallið saman frekar en að fólk hafi verið inni í eiginlegum helli þegar slysið átti sér stað,“ segir Sveinn Kristján. 

Ekki raunhæft að notast við vinnuvélar 

Að sögn hans hefur verið horfið frá því að koma vinnuvélum á vettvang til að aðstoða við gröft.

„Það er vonlaust að koma þeim að og búið að hörfa frá þeim aðgerðum,“ segir Sveinn. 

Að sögn hans óttast menn ekki frekara hrun og eru björgunarsveitarmenn að beita handafli við að ýta frá stórum ísklökum til að reyna að komast að þeim tveimur sem eru fastir undir ísnum. 

„Þetta er töluverður ís sem þarf að fara í gegnum,“ segir Sveinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert