Kennarasambandið virðist mótfallið umræðunni

Forsvarsmenn innan menntakerfisins virðast helst vilja að umræðan um stöðu grunnskólakerfisins sé látin liggja í þagnargildi. Óheppilegt sé að opinberlega sé fjallað um árangurinn.

Þetta er mat Hólmfríðar Maríu Ragnhildardóttur, blaðamanns á Morgunblaðinu, sem fjallað hefur á ítarlegan hátt og úr ýmsum áttum um stöðu grunnskólakerfisins, á síðustu mánuðum. Hratt hún umræðunni af stað með viðtali við Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóra Réttarholtsskóla í viðtali í Dagmálum þann 3. júlí. Viðtalið vakti mikla eftirtekt.

Hefur umræðan um stöðu grunnskólakerfisins, sem samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum skrapar botninn meðal kerfa innan Evrópu, risið hátt og margir lagt orð í belg. Það hefur meðal annars Viðskiptaráð gert í tengslum við fyrirhuguð áform mennta- og barnamálaráðherra um að leggja af svokölluð samræmd könnunarpróf, sem raunar hafa ekki verið lögð fyrir nemendur hér á landi frá árinu 2021.

Hólmfríður er gestur Spursmála og ræðir þar um stöðu grunnskólans en ekki síst hvernig umræðan um kerfið blasi við henni, þar sem hún hefur staðið í eldlínunni síðustu vikur. Hefur hún í þeirri umræðu jafnvel orðið fyrir persónulegum árásum á samfélagsmiðlum.

Hluta af umræðunni má sjá og heyra í upptökunni hér að ofan en orðaskiptin eru einnig rakin hér að neðan. Viðtalið allt má sjá í spilaranum neðst í fréttinni en það má einnig nálgast á Spotify og öðrum helstu streymisveitum.

Fólk sakað um þekkingarleysi

Er þetta rétt upplifun hjá þeim sem stendur og horfir á þetta utan frá að Kennarasambandið og þessir aðilar sem véla um kerfið eða halda utan um það á hverjum tíma að þeir vilji ekki þessa ytri umræðu? Þeir hafa brugðist mjög harkalega við gagnvart Viðskiptaráði. Jafnvel foreldrar sem hafa lagt orð í belg og vísa ég þar í sjálfan mig eru bara barðir niður og sagt, þetta kemur ekki við, þið hafið ekki þekkingu á þessu. Er þetta viðkvæðið eða er þetta einhver viðkvæmni af minni hálfu?

„Maður upplifir það þegar maður er að ræða við annað hvort Kennarasambandið eða einmitt Helga Grímsson hjá skóla- og frístundaráði að þetta sé vandamál, það virðist allir vera meðvitaðir um að það þurfi að laga eitthvað en fólk virðist bara vilja gera það í friði. Og ekki þannig að það sé verið að fylgjast með því hver árangurinn sé. Og að birta upplýsingar opinberlega virðist vera eitthvað, tilhugsunin hræðir marga. Það er talað um að það sé ósanngjarnt að birta þessar upplýsingar því það séu svo margar aðrar breytur sem skipta máli eins og menntunarstig foreldra og tekjubakgrunnur og eitthvað svoleiðis en auðvitað er það að birta þessar upplýsingar opinberlega, það er ekki gert til þess að veita einhverjar medalíur hvaða skólar standa sig best. Þetta er bara gert til þess að við séum með þessar upplýsingar á hreinu.“

Og til þess að það sé hægt að bregðast við þar sem menn eru að standa sig vel.

„Já akkúrat. Og þetta er ekki gert til þess að ná sér niður á einhverjum kennurum, eða skamma einhverja kennara. Þetta eru bara upplýsingar sem við þurfum að hafa, þetta er pólitískt mál. Við verðum að vita hvernig við erum að standa okkur í að reka þessa skóla. Og auðvitað væri það í hag barnanna að þetta væri birt opinberlega svo við getum ráðist í umbætur þar sem þess er þörf. EIns og Helgi Grímsson talaði um. Þeir eru að vinna með einhverjar upplýsingar, eitthvað meðaltal sem var tekið 2016-2018 til þess að ákvarða hvaða skólar þurfi á fjármagni að halda. Hvernig  vitum við hvort að þessar umbætur séu að skila sér, að þetta fjármagn sé að skila sér þannig að það skipti máli?“

Spursmálaþáttinn má sjá í heild sinni hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert