Reiðhjólaversluninni Hvelli lokað

Guðmundur keypti verslunina Hvell árið 2004 en henni verður lokað …
Guðmundur keypti verslunina Hvell árið 2004 en henni verður lokað í byrjun september vegna mikils samdráttar í sölu reiðhjóla. mbl.is/Eyþór

Reiðhjólaversluninni Hvelli við Smiðjuveg í Kópavogi verður senn skellt í lás. Guðmundur Tómasson, eigandi og framkvæmdastjóri Hvells, segir við Morgunblaðið að þetta hafi hann orðið að gera vegna mikils samdráttar í sölu á reiðhjólum.

Hann segir þessa þróun gera það að verkum að verið sé að loka fleiri reiðhjólaverslunum, þar sem fólk sé nú frekar farið að ferðast um á bílum og öðrum farartækjum.

Fólk kaupi frekar rafskútur

Spurður hvort fólk sé nú farið að kaupa rafskútur og rafhjól frekar en venjuleg reiðhjól svarar hann því játandi.

Einnig segist hann selja færri barnareiðhjól núna en áður. Börnin fái frekar hlaupahjól eða þeim sé skutlað á bíl, í stað þess að hjóla.

Hvellur selur ný reiðhjól og bendir Guðmundur á að undanfarin ár hafi það færst í aukana hér á landi að fólk kaupi frekar notuð reiðhjól en ný. Þrátt fyrir það hafi færri komið með hjól í viðgerð, en Hvellur hefur einnig boðið upp á þá þjónustu. „Það segir okkur að notkunin hefur minnkað verulega,“ segir hann.

Keyptu búðina fyrir 20 árum

Guðmundur og fjölskylda hans keyptu Hvell fyrir 20 árum en fyrirtækið á sér um 35 ára sögu. Hann segir ástæðu fyrir lokuninni einnig vera þá að hann sé kominn á aldur, „og rúmlega það“.

Útsala á vörum verslunarinnar er hafin en Hvelli verður lokað í byrjun september. Guðmundur segir að eftir lokun hennar muni fjölskyldan setja lagerinn í geymslu. Eru þau búin að selja húsnæðið og styttist í að það verði tæmt.

Verður áfram vefverslun

Guðmundur segir að endingu að þótt versluninni verði lokað sé fyrirtækið ekki að hætta starfsemi, þau muni áfram selja reiðhjól á vefsíðu sinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert