Sextán ára piltur var í kvöld í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í gæsluvarðhald til 30. ágúst á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Gæsluvarðhaldið er sagt í þágu rannsóknar hennar á alvarlegri líkamsárás í miðborginni í gærkvöld.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.
„Pilturinn er grunaður um að hafa stungið þrjú ungmenni með hnífi í miðborginni í gærkvöld, en tilkynning um málið barst lögreglu um hálftólfleytið og var hún með mikinn viðbúnað vegna málsins,“ segir í tilkynningunni.
„Sökum ungs aldurs verður pilturinn vistaður með viðeigandi hætti á meðan gæsluvarðhaldið varir. Ungmennin, sem urðu fyrir árásinni, voru öll flutt á slysadeild, en eitt þeirra slasaðist mjög alvarlega og er í lífshættu.“