„Skýrt merki um ofbeldismenningu“

Fulltrúi Sósíalista segir Hjálmar gera lítið úr Kolbrúnu.
Fulltrúi Sósíalista segir Hjálmar gera lítið úr Kolbrúnu. Samsett mynd

Fulltrúi Sósíalistaflokksins hefur sent forsætisnefnd Reykjavíkurborgar erindi þar sem kvartað er undan framkomu Hjálmars Sveinssonar, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, í garð Kolbrúnar Áslaugar Baldursdóttur, borgarfulltrúa Flokks fólksins.

Kolbrún deilir erindinu á Facebook-síðu Flokks fólksins. 

Í því segir að á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í ágúst hafi Hjálmar veist að Kolbrúnu á „einstaklega rætinn og ómaklegan hátt“.

„Hjálmari blöskraði fjöldi tillagna og fyrirspurna frá Flokki fólksins sem hann gerði athugasemd við með því að hæðast að og gera lítið úr borgarfulltrúa, varaborgarfulltrúa, flokknum og kjósendum hans og þetta var langt í frá fyrsta skiptið sem hann notar niðurlægjandi svip, tón og orðfæri við minnihlutann svo eftir er tekið,“ segir í erindinu.

Samræmist ekki siðareglum

Þá hafi hann sagt á fundinum að meirihlutinn í borgarstjórn hafi ýmislegt betra við sinn tíma að gera en að fara yfir tillögur og fyrirspurnir frá Flokki fólksins.

„Framkoma Hjálmars við Kolbrúnu, kjörinn fulltrúa sem er að nýta rétt sinn, atorku og dugnað til að vinna fyrir íbúa borgarinnar, sýnir ákveðinn dómgreindarbrest en er einnig skýrt merki um ofbeldismenningu sem samræmist ekki siðareglum kjörinna fulltrúa og við getum ekki samþykkt og megum ekki samþykkja í okkar sölum.

Ítrekuð framkoma af þessu tagi kallast einelti og það er staðreynd að einelti fær ekki þrifist nema meðvirkni sé einnig til staðar - ég neita að taka þátt í slíku,“ segir í erindinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert