Aðstæður eru erfiðar á Breiðamerkurjökli þar sem göngufólk er innlyksa í íshelli sem hrundi fyrr í dag. Einhverjir eru taldir alvarlega slasaðir.
Hópslysaáætlun almannavarnadeildar hefur verið virkjuð vegna slyssins og samhæfingarstöð einnig verið opnuð.
Einnig er búið að opna fjöldahjálparstöð í grunnskólanum Hofgarði í Öræfum.
„Slysið er mjög alvarlegt,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, við mbl.is. Þá séu aðstæður erfiðar, enda uppi á jökli. „Það er langt að fara og þegar aðgerðir eru á ís verða aðstæður erfiðar.“
Tilkynnt var um slysið um kl. 15 í dag og hefur fjöldi viðbragðsaðila verið ræstur út.
Sérþjálfaðir björgunarmenn eru á leiðinni á vettvang og viðbragðsaðilar eru margir mættir að svæðinu.
Björgunarsveitir frá Höfn, Öræfum og Kirkjubæjarklaustri hafa verið ræstar út, að sögn upplýsingafulltrúa Landsbjargar.
Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa verið kallaðar út vegna slyssins, segir Hjördís. Önnur þyrla er á leiðinni. Þá er sjúkraflugvél einnig á leiðinni.
Sjúkraflutningabílar og lögreglubílar voru einnig ræstir út en erfitt er að nálgast vettvang að sögn viðbragðsaðila.
Veistu meira? Þú getur sent okkur ábendingar á tölvupóstfangið frettir@mbl.is