Líðan stúlkunnar sem hlaut lífshættulega áverka í stunguárás í miðbænum í gærkvöldi er óbreytt að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns miðlægrar rannsóknardeildar.
Grímur segir að lítil framvinda sem vert sé að tala um hafi orðið í málinu í dag.
„Það er búið að vera að yfirheyra í dag og taka skýrslur þannig það er bara verið að safna þeim gögnum eins og gerist í svona rannsókn,“ segir Grímur.
Hvorki stungumaðurinn né fórnalömb hans hafa náð 18 ára aldri en í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag tók Grímur fram að ef að einstaklingum undir 18 ára sé gert að sæta gæsluvarðhaldi sé það gert í „viðeigandi úrræði en ekki fangelsi“.
Spurður út í þetta segir Grímur: „Það er ekki alveg komið í ljós hvernig þetta verður með gæsluvarðhald. Það er ekki búið að leiða hann [stungumanninn] fyrir dómara ennþá.“
Þá segir hann enn ekki tímabært að gefa út hvort farið verið fram á gæsluvarðhald yfir stungumanninum.