Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að unnið sé í teymum við að fjarlægja ís sem hrundi þegar ísveggur gaf sig í íshellaferð ferðamanna í dag.
Fjórir úr hópi 25 manna urðu undir ísfargi og er tveggja enn leitað.
„Fyrr í kvöld var björgunarfólki skipt í teymi og nú er unnið í törnum þannig að eins margir og komast að vinna í einu,“ segir Jón Þór.
Hann segir enn ríflega 100 manns á svæðinu og að Björgunarfélag Hornafjarðar hafi útbúið mat fyrir mannskapinn.
Þá segir hann enn óákveðið hve lengi verður unnið inn í nóttina.