Unglingur í lífshættu eftir stunguárás

Margir urðu vitni að árásinni.
Margir urðu vitni að árásinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrjú ungmenni voru stungin við Skúlagötu í miðbæ Reykjavíkur á tólfta tímanum í gærkvöldi og er eitt þeirra í lífshættu. Lögreglan hefur ekki útlokað að árásin sé tilraun til manndráps.

Seinna um nóttina var einn handtekinn á heimili sínu grunaður um verknaðinn.

Meintur gerandi og brotaþolarnir þrír eru allir undir lögaldri, að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns miðlægrar rannsóknardeildar.

Mikill viðbúnaður var niðri í bæ á Menningarnótt í gær og Grímur segir í samtali við mbl.is að margir hafi orðið vitni að árásinni. Grímur gefur ekki upp hvert kyn brotaþola eða gerenda er í málinu.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alvarlega særður

Er grunur um að þetta sé tilraun til manndráps? 

„Svoleiðis liggur oft undir bara við rannsókn máls. Þegar hnífi er beitt getur það flokkast undir tilraun til manndráps,“ svarar Grímur, sem tekur þó fram að brotaþolar séu allir á lífi.

Einn brotaþoli sé aftur á móti í lífshættu, þar sem viðkomandi sé afar alvarlega særður. Þá liggi enn ekki fyrir hvort brotaþolar og gerandi þekkjast.

Grímur segir að árásin hafi verið við Skúlagötu en frekari upplýsingar kvaðst hann ekki geta veitt.

Veistu meira? Þú getur sent okkur skeyti á frettir@mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert