Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir fjöldann sem kom að björgunaraðgerðum í Breiðamerkurjökli geta teygt sig upp í 250 manns.
Það sé þó ekki farið að reyna á þolmörk björgunarsveita á landsvísu. Landsbjörg sé með stóran af reynslumiklu fólki.
Í samtali við mbl.is segir Jón að samkvæmt skráningum Landsbjargar hafi 199 manns komið að aðgerðum slysavarnarfélagsins frá því að íshellir í Breiðamerkurjökli hrundi í gær.
Segir hann að þó séu einhverjir sem komið hafa af aðgerðum sem séu ekki skráðir í aðgerðagrunn Landsbjargar og nefnir hann slökkviliðsmenn frá Höfn, Kirkjubæjarklaustri og Reykjavík sem dæmi.
„Þannig að þetta gæti farið að teygja sig upp í 250 manns sem hafa komið að þessu.“
Spurður um hvort aðgerðir eins og þessar reyni of mikið á þolmörk björgunargetu slysavarnafélagsins segir Jón ekki svo vera.
„Við eigum ansi góðan hóp, sérstaklega af varaliðum. Fólk sem að er áfram virkt, er kannski ekki í fyrsta útkalli en er tilbúið þegar það raunverulega þarf á miklu mannafli að halda.“
Aðgerðir sem þessar krefjast mikils mannafla en það hefur þó ekki áhrif á aðrar björgunaraðgerðir á landinu. Jón Þór nefnir að björgunarbátur hafi til að mynda verið sendur út í gær eftir að útkall kom frá Arnarnesvogi. Það sé því töluvert í að það fari að reyna á þolmörk félagsins.
„Eins og konan segir, það er nóg til og meira frammi,“ segir Jón og bætir við.
„Það er talsvert mikið af mannskap til sem hægt er að kalla til þegar fer að vera erfitt um aðdrætti. Fólk með gífurlega reynslu og hefur komið að erfiðum málum. En er kannski ekki enn bara á milli tvítugs og þrítugs.“
Jón segir að á þriðja tug ökutækja hafi verið notuð í aðgerðunum undanfarinn sólahring og þar á meðal voru fluttir tveir rústabjörgunargámar á svæðið.
„Þetta eru tuttugu feta gámar. Þeir fara þarna austur með rafstöðvar og ljós og annað.“
Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út og fluttu mannskap og búnað að jöklinum. Þá naut Gæslan einnig aðstoðar danska sjóhersins, en þyrla danska hersins létti undir með Gæslunni í flutningum.