Annar samstöðufundur með Yazan Tamimi, fötluðum dreng sem á að vísa úr landi, verður haldinn á Austurvelli á morgun.
Fram kemur í tilkynningu að samkvæmt nýjustu fréttum gæti brottvísunin gerst með mjög stuttum fyrirvara.
„Þegar hafa tæplega 1.400 manns brugðist við fundinum á Facebook og er því búist við miklum fjölda. Fundurinn verður á Austurvelli, þriðjudaginn 27 ágúst kl 17:00 og fundarstjóri er Sólveig Arnarsdóttir, leikkona,“ segir í tilkynningunni.
Ræður flytja Tótla I. Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, og Bjarni Karlsson, prestur og siðfræðingur.
1.430 einstaklingar hafa sent frá sér yfirlýsingu til stuðnings Yazan Tamimi eins og sjá má hér. Flettingar á síðunni eru orðnar tæplega 6.000 talsins, að því er segir í tilkynningunni.