Dýr og ómarkviss tekjuöflun

Áform stjórnvalda um að rukka bifreiðaeigendur um vegatolla á stofnbrautum …
Áform stjórnvalda um að rukka bifreiðaeigendur um vegatolla á stofnbrautum sæta harðri gagnrýni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Gera má ráð fyrir 120 króna meðaltekjum af hverri ferð. Þar ofan á bætist stofnkostnaður, rekstrarkostnaður, innheimtukostnaður og virðisaukaskattur. Varlega áætlað mun meðalvegatollurinn verða 200 krónur, hærri á álagstímum og lægri utan þess,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, í samtali við Morgunblaðið, en félagið er afar gagnrýnið á fyrirætlanir stjórnvalda um innheimtu veggjalda af umferð sem boðuð er í nýlega uppfærðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

Hann segir vegatolla einstaklega dýra og ómarkvissa leið til að hafa tekjur af umferð eða reyna að stýra henni. Kílómetragjald sé hagkvæmari, sanngjarnari og skynsamlegri kostur sem leggist á raunverulega notkun ökutækja.

Hann segir viðbúið að starfsfólk sem hafi aðstöðu til krefji vinnuveitendur um greiðslur til að mæta vegatollunum. Sá kostnaður fari beint út í verðlagið eða leiði til aukins kostnaðar hjá opinberum stofnunum og fyrirtækjum.

Í slíkum tilvikum muni vegatollarnir engin áhrif hafa á umferðarþungann heldur lenda á almenningi.

Runólfur bendir á að gert hafi verið ráð fyrir í fyrri áætlun að í fyrsta áfanga yrðu vegatollar innheimtir af umferð um Kringlumýrarbraut, Reykjanesbraut og Elliðaárbrekku gegnum Fossvogsdal og Elliðaárdal. Í öðrum áfanga sé innheimta áformuð af umferð gegnum Hafnarfjörð, Kópavog, Seltjarnarnes og Mosfellsbæ. Það bætist ofan á innheimtuna í fyrsta áfanga. Einkabíll á leið milli Seltjarnarness og Hafnarfjarðar gæti mögulega borgað vegatoll fjórum sinnum á hvorri leið, 1.600 krónur alls. Vegatollar bætist við allar aðrar álögur á bíla og umferð sem nemi um 95 milljörðum króna á ári, en Runólfur segir að innan við þriðjungi þess fjár sé varið til samgöngumannvirkja á landinu öllu.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert