„Ég vildi ekki fara þar meir“

Einar segir að oftast hrynji úr hellum og gjám í …
Einar segir að oftast hrynji úr hellum og gjám í Breiðamerkurjökli í lok sumars eða um haust. mbl.is/RAX

Þegar leiðsögumenn taka ákvörðun um hvort farið verði inn í íshella, eða í aðrar sambærilegar aðstæður á og í jöklum, þurfa þeir að horfa til aðstæðna frá degi til dags.

Þetta segir Einar Rúnar Sigurðsson, eigandi Öræfaferða, sem meðal annars hefur gert út íshellaferðir í Breiðamerkurjökli.

Aðkoman ekki góð

Einar var einn þeirra sem vann að björgunaraðgerðum á slysstað í Breiðamerkurjökli í gær. Segist hann í samtali við mbl.is hafa séð gjána þar sem slysið átti sér stað og að aðkoman hafi ekki verið góð.

„Ég hljóp þarna fyrst inn að þeim, um leið sem virtist hafa verið farið um, og ég vildi ekki fara þar meir.“

Kveðst Einar yfirleitt ekki fara með fólk í íshellaferðir fyrr en í nóvember.

„Það er svona í lok sumars eða um haustið sem oftast er eitthvað að hrynja.“

Þó segir Einar að ákjósanlegar aðstæður hafi myndast fyrir ferðir í hella og göng á þessum árstíma áður og að sjálfur hafi hann fyrir nokkrum árum farið með fólk í íshella í júlí og ágúst.

„Í Kötlujökli eru gerðar út ferðir allt árið í mjög sambærilegar aðstæður og voru þarna í gær.“

Ekki nærri því allir setið námskeið

Félag íslenskra fjallaleiðsögumanna býður upp á sérstök íshellanámskeið fyrir leiðsögumenn en Einar hefur sjálfur kennt á slíkum námskeiðum.

Hann segir þó ekki nærri því alla leiðsögumenn í íshellaferðum hafa setið slíkt námskeið en að hann viti að til standi að herða reglur og að enginn muni þá fara með hóp í íshellaferð sem ekki hefur setið námskeiðið.

Þá segir hann að hvert einstakt fyrirtæki þurfi að skila inn öryggisáætlun vilji það gera út íshellaferðir. Öll fyrirtæki sem hafi leyfi frá Vatnajökulsþjóðgarði séu með sérstaka öryggisáætlun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert