Birta Hannesdóttir
Eitt fórnarlambanna sem ráðist var á með hníf við Skúlagötu í miðborg Reykjavíkur á Menningarnótt er drengur af erlendum uppruna. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar, í samtali við mbl.is.
Hann gat ekki veitt nánari upplýsingar um uppruna drengsins en Vísir kveðst hafa heimildir fyrir því að drengurinn sé frá Palestínu. Þá segir í fréttflutningi Vísis að hin tvö fórnalömbin séu íslenskar stúlkur.
Grímur vildi ekki staðfesta kyn allra brotaþolanna en sagði hina tvo vera Íslendinga.
Aðspurður segir hann að árásin sé ekki rannsökuð sem hatursglæpur.
Sextán ára piltur var í gærkvöldi úrskurðaður í gæsluvarðhald til 30. ágúst á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann sætir nú einangrun og gæsluvarðhalds í fangelsinu á Hólmsheiði.
Þrjú ungmenni urðu fyrir stunguárásinni. Þau voru öll flutt á slysadeild og hlaut ein stúlka lífshættulega áverka. Að sögn Gríms er stúlkan enn í lífshættu.