Ísfargið sem hrundi á þá ferðamenn sem er leitað er nokkur tonn að þyngd. Ekki er búið að bera kennsl á hinn látna en sá sem var fluttur með þyrlu á Landspítalann í gær er í stöðugu ástandi.
Þetta segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.
Ísveggur gaf sig í gær í Breiðamerkurjökli með þeim afleiðingum að minnst einn er látinn, tveggja er saknað og einn var fluttur á sjúkrahús slasaður.
Ekki er búið að auðkenna hverra er saknað og þá er ekki heldur búið að bera kennsl á hinn látna.
„Það er ekki nákvæmur listi,“ segir Sveinn spurður hvort að ekki sé til listi yfir nöfn þeirra voru með í ferðinni.
Hægt var að skrá sig í ferðina og taka frá pláss fyrir fleiri. Sveinn segir að stuðst sé við talningu leiðsögumanna.
Um 60 manns taka þátt í björgunaraðgerðum að svo stöddu og Sveinn gerir ráð fyrir að fjöldinn verði þannig fram eftir kvöldi.
„Þetta eru svona ísgöng sem fólkið hefur gengið í gegnum og hluti af þakinu hrundi. Þannig þetta er töluvert ísmagn. Einhver tonn, það er alveg á hreinu,“ segir Sveinn aðspurður.
Tilkynnt var um slysið kl. 15 í gær og var hópslysaáætlun almannavarna virkjuð. 25 erlendir ferðamenn voru í skipulagðri íshellaferð á jöklinum og fjórir lentu undir ísfarginu.
Tveimur var bjargað undan ísfarginu. Var annar þeirra úrskurðaður látinn á staðnum en hinn sendur suður til Reykjavíkur á sjúkrahús eins og áður sagði.