Ekki búið að bera kennsl á hinn látna

Frá aðgerðum björgunarsveita á Breiðamerkurjökli.
Frá aðgerðum björgunarsveita á Breiðamerkurjökli. Ljósmynd/Landsbjörg

Ísfargið sem hrundi á þá ferðamenn sem er leitað er nokkur tonn að þyngd. Ekki er búið að bera kennsl á hinn látna en sá sem var fluttur með þyrlu á Landspítalann í gær er í stöðugu ástandi.

Þetta segir Sveinn Kristján Rún­ars­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á Suður­landi, í samtali við mbl.is.

Ísveggur gaf sig í gær í Breiðamerkurjökli með þeim afleiðingum að minnst einn er látinn, tveggja er saknað og einn var fluttur á sjúkrahús slasaður.

Ekki er búið að auðkenna hverra er saknað og þá er ekki heldur búið að bera kennsl á hinn látna.

Ekki nákvæmur nafnalisti

„Það er ekki nákvæmur listi,“ segir Sveinn spurður hvort að ekki sé til listi yfir nöfn þeirra voru með í ferðinni.

Hægt var að skrá sig í ferðina og taka frá pláss fyrir fleiri. Sveinn segir að stuðst sé við talningu leiðsögumanna.

Um 60 manns taka þátt í björgunaraðgerðum að svo stöddu og Sveinn gerir ráð fyrir að fjöldinn verði þannig fram eftir kvöldi.

Nokkur tonn af ís

„Þetta eru svona ísgöng sem fólkið hefur gengið í gegnum og hluti af þakinu hrundi. Þannig þetta er töluvert ísmagn. Einhver tonn, það er alveg á hreinu,“ segir Sveinn aðspurður.

Til­kynnt var um slysið kl. 15 í gær og var hóp­slysa­áætl­un al­manna­varna virkjuð. 25 er­lend­ir ferðamenn voru í skipu­lagðri ís­hella­ferð á jökl­in­um og fjór­ir lentu und­ir ís­farg­inu.

Tveim­ur var bjargað und­an ís­farg­inu. Var ann­ar þeirra úr­sk­urðaður lát­inn á staðnum en hinn send­ur suður til Reykja­vík­ur á sjúkra­hús eins og áður sagði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert