Ferðamennirnir sem lentu undir ísfarginu í Breiðamerkurjökli voru í ferð á vegum ferðaþjónustufyrirtækisins Ice Pic Journeys.
Þetta herma heimildir mbl.is.
Á vefsíðu fyrirtækisins státar það sig af því að vera eitt af fáum fyrirtækjum sem býður upp á íshellaferðir á sumrin.
23 manna hópur var á vegum fyrirtækisins í íshellaferð í gær þegar ísveggur gaf sig og hrundi á bandarískt par með þeim afleiðingum að karlmaðurinn lést og konan slasaðist.
Fyrst var talið að 25 væru í hópnum og hefur því umfangsmikil leit staðið yfir í næstum sólarhring sem á annað hundrað hafa komið að.
„Sumartíminn þýðir ekki að engir íshellar séu á Íslandi. Þvert á móti erum við eitt af fáum fyrirtækjum sem eru stöðugt að leita að nýmynduðum hellum og bjóðum ferðir inni í þá utan vetrartímans. Það besta er að við munum að mestu leyti hafa íshellana út af fyrir okkur sem gerir upplifunina enn persónulegri fyrir þig,“ segir á vefsíðu fyrirtækisins.
Ice Pic Journeys er í eigu tveggja Bandaríkjamanna og á vefsíðu fyrirtækisins er sérstaklega fjallað um íshellaferðir á sumrin.
„Ekki allir átta sig á því að það er hægt að fara í náttúrulegan íshelli yfir sumartímann á Íslandi,“ segir þar, þar sem jafnframt er útskýrt að fyrirtækið vinni ávallt að því að tryggja öryggi fólks.
Þess ber að geta að Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, sagði í samtali við mbl.is í morgun að ferðamennirnir sem lentu í slysinu hefðu gengið í gegnum ísgöng áður en að hluti af þakinu hefði hrunið.
„Hellarnir okkar á Íslandi eru alltaf að breytast og þegar ísinn bráðnar svo mikið að hann er of þunnur til að bera þyngdina, getur þakið hrunið,“ segir á vefsíðu fyrirtækisins.
„Það er þess vegna sem það er mikilvægt að heimsækja aðeins íshella með vottuðum leiðsögumanni sem þekkir vel til og getur tekið eftir hættum í hellinum fyrir fram,“ segir þar enn fremur.
Á vefsíðunni segir að einum eiganda fyrirtækisins hefði þótt vera skömm af því að íshellaferðir væru ekki í boði allan ársins hring. Hann byrjaði því að bjóða í íshellaferðir á sumrin.
Ódýrasta íshellaferðin sem fyrirtækið býður upp á á sumrin kostar 30 þúsund krónur.