Hátt í 200 leituðu fólks sem var ekki til

Frá aðgerðum björgunarsveita í Breiðamerkurjökli í gærkvöldi.
Frá aðgerðum björgunarsveita í Breiðamerkurjökli í gærkvöldi. Ljósmynd/Landsbjörg

Hátt í 200 viðbragðsaðilar hafa tekið þátt í umfangsmikilli björgunar- og leitaraðgerð í Breiðamerkurjökli.

Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu, þar sem segir að fullyrða megi að mikið þrekvirki hafi verið unnið á vettvangi. 

Búið sé að brjóta niður og færa til gríðarlegt magn af ís, meira og minna allt með handafli.

Eins og fram hefur komið þá reyndist enginn hafa orðið fyrir ísnum, sem talinn var hafa fallið á tvo ferðamenn til viðbótar við þau tvö sem náðust undan ísfarginu í gær.

„Ljóst virðist að skrán­ing í ferðina og ut­an­um­hald hafi ekki verið ná­kvæmt auk mis­vís­andi upp­lýs­inga um fjölda í ferðinni,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Þakkar þeim sem komu að aðgerðum

„Lögreglan á Suðurlandi vill því þakka öllum þeim viðbragðsaðilum sem komu að leitar- og björgunaraðgerðinni. Það sýnir sig og sannar í verkefni sem þessu að við höfum á öflugu og lausnarmiðuðu fólki á að skipa þegar hætta steðjar að,“ segir í tilkynningunni.

„Einnig vill lögreglan þakka þeim ferðaþjónustuaðilum í nágrenni slysstaðar sem aðstoðuðu leitar- og björgunarfólk með gistingu og mat síðastliðinn sólarhring.“

Loks tekur lögregla fram að áfram verði unnið að rannsókn á tildrögum slyssins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert