Helmingur þjóðarinnar andvígur hernaðarstuðningi

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ásamt Volodimír Selenskí, for­seta Úkraínu.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ásamt Volodimír Selenskí, for­seta Úkraínu.

Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga er jákvæður gagnvart aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO). Hátt í helmingur þjóðarinnar er þó andvígur því að Ísland veiti Úkraínu beinan hernaðarstuðning.

Þetta kemur fram í könnun Maskínu um viðhorf Íslend­inga til ým­issa þátta í ut­an­rík­isþjón­ustu Íslands.

Um 30% landsmanna eru hlynnt því að Ísland veiti Úkraínu beinan hernaðarstuðning í stríðinu við Rússland, til dæmis með því að greiða fyrir hergögn, flutning á þeim og þjálfun hermanna. 48,4% eru andvíg því að Ísland veiti Úkraínu beinan hernaðarstuðning.

Í ár eru færri hlynntir því að styðja hernaðarlega við …
Í ár eru færri hlynntir því að styðja hernaðarlega við Úkraínu en í fyrra. Skjáskot/Maskína

Fleiri andvígir nú en í fyrra 

Hefur fjöldi þeirra sem er andvígur hernaðarstuðningi aukist frá síðasta ári, þegar 39% voru andvígir. Athygli vakti í kappræðum í aðdraganda forsetakosninganna á Íslandi að Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, var á móti hernaðarstuðningi við Úkraínu.

74,6% svarenda segjast þó hlynntir því að Ísland styðji við Úkraínu í stríðinu við Rússland á sama tíma og 9,4% eru því andvígir. Þá eru 86,2% Íslendinga hlynnt því að veita Úkraínu mannúðaraðstoð.

Íslendingar eru þó almennt hlynntir því að Ísland styðji við …
Íslendingar eru þó almennt hlynntir því að Ísland styðji við Úkraínu. Skjáskot/Maskína

Fáir andvígir aðild Íslands í NATO

Íslendingar eru þó almennt mjög hlynntir varnarsamstarfi Íslands við önnur vestræn ríki.

64,1% Íslendinga eru jákvæðir gagnvart aðild Íslands að NATO á sama tíma og aðeins 11,2% eru neikvæðir.

Í könnuninni var einnig spurt út í viðhorf fólks til varnarsamningsins við Bandaríkin og út í heræfingar á Íslandi.

Mjög fáir Íslendingar eru neikvæðir gagnvart aðild Íslands að NATO.
Mjög fáir Íslendingar eru neikvæðir gagnvart aðild Íslands að NATO. Skjáskot/Maskína

Meirihluti hlynntur varnarsamstarfi við Bandaríkin

Það vill svo til að varn­aræf­ing­in Norður-Vík­ing­ur hófst í dag og stendur yfir til 3. september. Munu 1.200 manns frá Íslandi, Banda­ríkj­un­um og banda­lags­ríkj­um taka þátt og er æfingin gerð á grundvelli varnarsamnings Bandaríkjanna og Íslands frá árinu 1951.

Aðeins 18,3% Íslendinga eru andvíg varnarsamstarfi við Bandaríkin á sama tíma og 52,8% eru hlynnt.

Þá eru 44,3% Íslendinga hlynnt því að haldnar séu heræfingar hér á landi á sama tíma og 25,8% eru andvíg.

Skjáskot/Maskína
Skjáskot/Maskína
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert