Hundrað manns í leitinni: „Þetta er erfiðisvinna“

Leit að tveimur ferðamönnum sem saknað er á Breiðamerkurjökli eftir …
Leit að tveimur ferðamönnum sem saknað er á Breiðamerkurjökli eftir að ísveggur gaf sig í gær hófst aftur við birtingu í morgun. Ljósmynd/Rut Gunnarsdóttir

Leit að tveimur ferðamönnum sem saknað er á Breiðamerkurjökli eftir að ísveggur gaf sig í gær hófst aftur við birtingu í morgun.

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir við mbl.is að nú séu um hundrað manns sem taki þátt í leitinni.

Ekki hægt að koma neinum tækjum að

„Þetta er erfiðisvinna því það er ekki hægt að koma neinum tækjum þarna að heldur en handverkfærum,“ segir Jón Þór við mbl.is.

Greint var frá því í gærkvöldi að tveir aðilar sem urðu fyrir íshruninu hefðu slasast alvarlega. Annar þeirra var úrskurðaður látinn á vettvangi en hinn var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann og er líðan hans stöðug.

Jón Þór segir að verkefnið sé að brjóta ísinn sem þarna féll og settir hafi verið upp nokkrir hópar sem skiptast á.

Fjarskiptasamband ekki gott

„Þetta er ekki stór vettvangur og það er ekki pláss fyrir marga að vinna við hann. Það er búið að koma upp tjaldi við vettvanginn til að veita björgunarfólki skjól milli þess sem það sinnir verkefninu,“ segir Jón Þór.

Hann segir að fjarskiptasamband á svæðinu sé ekki gott, hvorki farsímasamband né tetrasamband, en vinna standi yfir við að tryggja betri fjarskipti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert