Kallar eftir ítarlegri rannsókn á hræðilegu slysi

Íshellir í Breiðamerkurjökli.
Íshellir í Breiðamerkurjökli. mbl.is/RAX

Garðar Hrafn Sigurjónsson, varaformaður Félags fjallaleiðsögumanna á Íslandi, segir félagið harma slysið sem átti sér stað í Breiðamerkurjökli í gær þar sem ísveggur gaf sig.

Einn er látinn og tveggja er saknað en umfangsmikil leit stendur enn yfir. Að minnsta kosti nokkur tonn af ís féllu á ferðamennina.

Mikilvægast að draga lærdóm

„Fyrst og fremst er þetta hræðilegt slys og hugur okkar er hjá fólkinu sem lenti í þessu slysi og kemur að því. Við köllum eftir því að eftirmálar, bæði viðskiptavina og þeirra leiðsögumanna sem voru á staðnum, verði góðir,“ segir Garðar Hrafn við mbl.is.

„Við reynum eins og við getum til að hjálpa okkar fólki með áfallahjálp og þess háttar en við þurfum að vinna saman úr því að ræða við fólk eftir svona atburð.“

Garðar segist trúa því, að fenginni reynslu sem fjallaleiðsögumaður, að mikilvægast sé að draga lærdóm af þessu slysi sem þurfi að rannsaka fagmannlega og ofan í kjölinn. 

Varasamt svæði að ferðast um

„Fjalllendi og jöklar eru varasamt svæði að ferðast um, á hvaða árstíma sem er. Alveg eins og það er varasamt að fara út á sjó bæði að sumar- og vetrarlagi. Þetta er náttúran sem við erum að eiga við,“ segir Garðar.

Starf fjallaleiðsögumanns sé fyrst og fremst að meta áhættu og taka ákvarðanir út frá því en hann segir félagið kalla eftir ítarlegri rannsókn á slysinu á sama hátt og rannsóknarnefnd samgönguslysa geri.

„Við köllum eftir því að ítarleg rannsókn fari fram fyrir utan hefðbundna lögreglurannsókn. Við erum ekki að benda á fólk en við þurfum fyrst og fremst að læra af því sem ekki fór vel. Og út frá því að laga bæði umgjörð og lagaumhverfi fólks sem vinnur á fjöllum,“ segir hann.

Fyrirtæki minnki áhættu

Þekkt er að ferðaþjónustufyrirtæki standi í framkvæmdum á jöklinum til að gera aðgengið betra og auka öryggi ferðamanna.

„Ég þekki ekki til hvernig aðstæður hafa verið nákvæmlega á þessum stað en það hefur verið regla að fyrirtæki, eins og fjallaleiðsögumenn gera og eiga að gera, séu að minnka áhættu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert