Leggur til samræmd próf í skólum Reykjavíkur

Samræmd próf verða aftur lögð fyrir grunnskólabörn í Reykjavík, verði …
Samræmd próf verða aftur lögð fyrir grunnskólabörn í Reykjavík, verði tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks að veruleika. Samsett mynd

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks hyggst leggja það til við borgarstjórn að tekin verði aftur upp samræmd próf í grunnskólum borgarinnar. Prófunum verði fylgt eftir með kennsluátaki fyrir þá sem það þurfi.

Frá þessu greinir borgarfulltrúinn Marta Guðjónsdóttir í grein sem hún ritar í laugardagsblað Morgunblaðsins, en hún situr í skóla- og frístundaráði borgarinnar.

Rýnt hefur verið í vanda skólakerfisins í umfjöllun mbl.is og Morgunblaðsins undanfarna mánuði og segir Marta hana hafa dregið fram skýra mynd af kreppu grunnskólakerfisins.

„Hún á rætur að rekja til fræðsluyfirvalda sem vinna markvisst gegn samræmdum mælikvörðum á námsárangur,“ fullyrðir Marta.

Komið verði í veg fyrir samfellda mælikvarða

Hún rifjar upp að skömmu eftir aldamót hafi verið hætt að birta árangur skóla í samræmdum prófum.

„Árið 2009 var hætt að nýta prófin sem mælikvarða á menntun og námshæfni. Samræmd próf voru aflögð tímabundið fyrir tveimur árum og nú á að leggja þau endanlega niður,“ skrifar hún og bendir á, eins og fram hefur komið, að í stað þeirra eigi að taka upp nýtt samræmt námsmat, svonefndan matsferil.

Að hennar mati mun nýja námsmatið draga verulega úr samanburðarforsendum kerfisins og segir hún skólastjóra, sveitarfélög eða ráðherra munu ráða því, hverju sinni, hvort og þá hvaða próf nemendum verði skylt að taka.

„Með slíku vali, innan kerfisins, verður komið í veg fyrir samfellda mælikvarða í tíma. Verði slík próf haldin, verður niðurstöðum einstakra skóla eða sveitarfélaga haldið leyndum til að koma í veg fyrir samanburð. Hver og einn skóli mun einungis fá upplýsingar um stöðu sína gagnvart landsmeðaltali.“

PISA-kannanir hafa hver á fæt­ur ann­arri sýnt versn­andi frammistöðu ís­lenskra …
PISA-kannanir hafa hver á fæt­ur ann­arri sýnt versn­andi frammistöðu ís­lenskra grunn­skóla­barna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Byggi á forræðishyggju sérfræðinga

Marta segir leyndarhyggju í skólastarfi byggja á þeirri forræðishyggju að umbætur í námi verði til á lokuðum skrifstofum „sérfræðinga“, fjarri vettvangi.

„Það er misskilningur. Slíkar umbætur eru félagslegt ferli. Þær sjá yfirleitt dagsins ljós í skólunum sjálfum, með samvinnu og samanburði upplýstra og áhugasamra skólastjóra, kennara, nemenda og forráðamanna þeirra,“ skrifar borgarfulltrúinn.

„Engin aðferðafræðileg rök hafa verið færð fyrir þessari óheillaþróun. Hún er réttlætt með því að einungis „sérfræðingar“ eigi að skipuleggja skólastarf. Það er einnig misskilningur. Það er enn ein útgáfan af ævintýrinu góða um nýju fötin keisarans, eins og síðustu PISA-kannanir hafa augljóslega afhjúpað.“

Grunnskólinn verði ekki endurreistur með „sérfræðiþekkingu“ heldur með almennri skynsemi, samræmdum mælingum og upplýsingastreymi.

Samanburður er forsenda farsældar

Marta segir samanburð nauðsynlega forsendu allrar viðleitni til að bæta lífsskilyrði, axla ábyrgð og efla siðferðisþroska.

„Það á ekkert síður við um skólastarf en aðra mannlega viðleitni. Samanburður og upplýsingar eru hryggjarstykkin í lýðræðislegri stjórnskipun og vísindalegum rannsóknum,“ skrifar hún.

„Ef þessi óheillaþróun verður að veruleika mun grunnskólinn hundsa alla skipulega heildar viðleitni til að mennta börn og unglinga. Hann mun leggja af sitt göfugasta hlutverk: Að vera jöfnunartæki sem aðstoðar þá sem standa höllum fæti. Hann mun svipta börn og unglinga ómældum tækifærum til lífsgæða, fjölga ósjálfbærum einstaklingum með tilheyrandi vonbrigðum og þjáningu.“

Tekur hún fram að vitaskuld hafi alltaf verið til góðir kennarar sem leggi metnað sinn í menntun nemenda sinna. Slíkir kennarar séu raunar mun fleiri en fólk geri sér grein fyrir.

„En viðleitni þeirra verður einungis tilviljanakennt einkaframtak – ekki skipulagt heildarmarkmið grunnskólans.“

Marta segir stjórnmálamenn bera ábyrgð á hnignun grunnskólans.
Marta segir stjórnmálamenn bera ábyrgð á hnignun grunnskólans. mbl.is/Hari

Stjórnmálamenn beri ábyrgð

Þá segir hún stjórnmálamenn bera á endanum ábyrgð á hnignun grunnskólans.

„Alþingi setur lög um grunnskóla en sveitarfélög bera ábyrgð á skólastefnu sinna skóla. Í Reykjavík eru þeir 44 talsins.

Ef Alþingi og ráðuneyti leggjast gegn samræmdu námsmati þurfa sveitarfélög, skólar og skólafólk að taka höndum saman og þróa sjálf með sér slíkt mat. Slíkum samræmdum prófum þyrfti að fylgja áætlun um kennsluátak þeim til handa sem lakast standa.“

Bendir Marta á að hún hafi ítrekað lagt það til í skóla- og frístundaráði að borgaryfirvöld fari þess á leit að geta nýtt betur PISA-niðurstöður skólanna, en án árangurs.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, sagði borgina ekki hafa lagt áherslu á að bregðast við niðurstöðum PISA-kannana til þessa, í viðtali í Morgunblaðinu 12. ágúst.

Kannanirnar hafa þó hver á fæt­ur ann­arri sýnt versn­andi frammistöðu ís­lenskra grunn­skóla­barna.

Skólastjórar ættu að þróa samræmda mælikvarða

Marta kveðst nú munu leggja fram tillögu í borgarstjórn um að Reykjavíkurborg fari þess á leit að tekin verði aftur upp samræmd próf í grunnskólum.

Prófunum verði fylgt eftir með kennsluátaki fyrir þá sem þurfi á því að halda.

„Ef einnig borgaryfirvöld hafna samræmdum menntamælikvörðum ættu allir skólastjórar á höfuðborgarsvæðinu sem hafa einlægan áhuga á heill og hag æskufólks að þróa með sér slíka samræmda námsmælikvarða. Sameinuð stöndum við – sundruð föllum við!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert