Leit hafin á jöklinum – Nærri 70 taka þátt

Viðbúnaður var mikill á Breiðamerkurjökli í gær.
Viðbúnaður var mikill á Breiðamerkurjökli í gær. Ljósmynd/Rut Gunnarsdóttir

Leit hófst á nýjan leik klukkan 7 í morgun á Breiðamerkurjökli þar sem tveggja er saknað eftir að ísveggur gaf sig í gær. Nærri 70 manns taka þátt í leitinni, að sögn Sveinn Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurlandi. 

„Það er eiginlega vonlaust að koma einhverjum vélum að þannig að þetta verður unnið með handafli,“ segir Sveinn Kristján.

„Við erum með allar bjargir úti til að reyna að komast undir þennan ísjaka og sjá hvað leynist undir honum,“ bætir hann við.

Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn stýrir aðgerðum.
Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn stýrir aðgerðum. Samsett mynd

Þyrla til taks

Þyrla Landhelgisgæslunnar var í Höfn í Hornafirði í nótt og verður hún til taks ef á þarf að halda við leitina.

Ástand ferðamannsins sem var fluttur alvarlega slasaður á sjúkrahús í gær er stöðugt og er hann ekki í lífshættu.

Ræða við leiðsögumenn

Lögreglan heldur í dag áfram rannsókn sinni á því sem gerðist.

„Við munum tala við fólkið sem var í hópnum og líka eigendur fyrirtækisins og ferðaskipuleggjendur og fara í gegnum hlutina. Við vorum að því í gærkvöldi og höldum því áfram í morgunsárið,“ segir Sveinn Kristján.

Tveir leiðsögumenn sem starfa hjá fyrirtækinu voru að störfum þegar slysið varð og verður rætt aftur við þá í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert