Menntamálaráðherra hafnar leyndarhyggju

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra hafnar því að með nýrri lagasetningu um samræmt námsmat í grunnskólum sé sú stefna innleidd sem feli í sér leynd um það hvernig raunveruleg staða kerfisins er á hverjum tíma.

Gögnin undanþegin upplýsingarétti?

Er hann spurður út í þetta atriði í nýjasta þætti Spursmála í kjölfar þess að Viðskiptaráð benti á að starfshópur ráðherrans, sem vann skýrslu um framtíðarstefnu um samræmt námsmat í grunnskólum, lagði til að breytingar yrðu gerðar á upplýsingalögum nr. 140/2012 og að þar yrði tilgreint sérstaklega að niðurstöður námsmats, sem er hluti af matsferli grunnskóla, yrðu felldar undir 6. gr. laganna sem kveður á um hvaða gögn á vettvangi ríkisins eru „undanþegin upplýsingarétti“ og því utan þess sviðs sem gefur almenningi rétt til aðgangs að þeim.

Samkvæmt því vill starfshópurinn að gögn um námsárangur í grunnskólakerfinu falli undir sömu skilgreiningu og t.d. fundargerðir ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreinar á ráðherrafundum og gögn sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi.

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra er gestur Stefáns Einars …
Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra er gestur Stefáns Einars í Spursmálum að þessu sinni. mbl.is/María Matthíasdóttir

Samkeppni alvarlegt vandamál

Vill starfshópurinn meina að með upplýsingagjöf um stöðu einstaka grunnskóla væri ýtt undir samkeppni milli þeirra og að afleiðingar af því gætu verið „alvarlegar.“

Ásmundur Einar hafnar því að með nýrri löggjöf sé unnið gegn því að gagnsæi ríki um árangur skólanna. Af frumvarpi til laga um breytingar á námsmati er erfitt að ráða með hvaða hætti aðgengi eða upplýsingagjöf verður háttað. Hitt er ljóst að ráðuneytið hefur ekki orðið við beiðni Viðskiptaráðs um að birta nýrri gögn en þau sem tengjast PISA-könnuninni sem lögð var fyrir árið 2012.

Í greinargerð með frumvarpinu sem nú hefur verið birt í samráðsgátt segir í greinargerð að „námsmat verði sett fram þannig að það veiti reglulega skýrar upplýsingar um framvindu náms og sé fjölbreytt mat á námi, vellíðan og velferð.“

Stjórnendur og stefnumótandi aðilar

Hins vegar er ekki kveðið á um hvernig þessar upplýsingar skuli birtar, né heldur hverjir muni hafa aðgang að þeim. Þannig segir aðeins í greinargerðinni að: „Þá geta upplýsingar úr námsmati verið mikilvægar til að átta sig á stöðu einstaka námshópa, skóla, sveitarfélaga og landshluta og skólakerfisins í heild þannig að skólastjórnendur og stefnumótandi aðilar geti fylgst með þróun námsárangurs.“

Frumvarpið gerir því ekki sérstaklega ráð fyrir að aðrir aðilar en þessir og þar á meðal ekki foreldrar geti áttað sig á þróun námsárangurs, t.d. milli sveitarfélaga og skóla.

Þetta ræðir Ásmundur Einar í Spursmálum og má sjá orðaskiptin þar um í spilaranum hér að ofan en einnig er samtalið dregið saman í textanum hér að neðan.

Gögnin séu leyndarmál

Þú ert með heilan stýrihóp þar sem þínir fulltrúar sitja, og reyndar með Kennarasambandinu líka og það er lögð þung áhersla á það af hálfu þessara aðila að þessi gögn, niður á skóla séu ekki birt, að þetta sé leyndarmál. að þessar upplýsingar...

„þú verður að leyfa mér að komast að, Stefán.“

Að þessar upplýsingar verði undanskildar upplýsingalögum. Þetta er mjög alvarlegt mál.

„Ef þú skoðar frumvarpið sem liggur fyrir, við skulum fjalla um frumvarpið sem liggur fyrir þinginu, eða sem er meiningin að leggja fram á þinginu og þetta er þar inni. Og ég er búinn að svara því hvernig þetta er þar. Hvaða upplýsingar er verið að tala um þar, en ef þú síðan skoðar hin gögnin, og af því að við erum komin út í gögn þá hafa fáir meiri áhuga á því en sá sem hér situr. Við erum nýlega búin að opna mælaborð um farsæld barna þar sem við erum með gögn sem eru niðurgreinanleg niður á sveitarfélög og fleiri þætti, þú getur skoðað landssvæði, sveitarfélög, sem byggjast á spurningum barnanna sjálfra. Bíddu leyfðu mér að klára...“

En grundvöllur að farsældinni er farsældin...

„Síðan erum við að fá núna miklu ítarlegri gögn sem tengjast menntuninni og ef við getum tengt þessi gögn saman og áttað okkur á heildstæðan hátt hvernig við getum bætt stöðu barna á Íslandi, og það er einmitt eitt af frumvörpunum sem ég er með á þingmálaskránni í vetur. Það er hvernig við getum tengt öll þessi gögn saman, þau sem við erum að fá úr menntakerfinu og þau sem við erum að fá úr hinum stöðunum. Þá getum við náð með heildstæðum hætti utan um börnin í íslensku samfélagi.“

Má ég þá skilja þig þannig, Ásmundur...

„Það eru fáir sem hafa jafn mikinn áhuga á þessu og þá getum við líka, af því að þú varst að tala um nýtingu á fjármagni, nei mér er, ég hef...“

Ertu þá að vísa til þín sjálfs?

„Nei, nei, með?“

Með áhugann á þessu?

„Nei, með nýtingu á fjármagni. Þá gefur þú okkur líka tækifæri og þetta er mikið ástríðumál hjá mér því þegar við höfum unnið að lagabreytingum sem við erum að vinna að og við erum að setja árangursmælikvarða inn í eiginlega alla samninga sem við gerum þar sem við ætlum að setja inn tölfræðilegan árangur í viðkomandi verkefnum og mæla fjárhagslegan ávinning af því að aðstoða börn með ólíkum hætti. Þá getum við tengt menntakerfið saman við þetta. Og ef við náum því þá erum við komin á þann stað að geta gert svo miklu betur í málefnum barna. Bæði hvað varðar menntun en líka þessa félagslegu þætti sem mér finnst þú gera dálítið lítið úr og þeir skipta miklu máli.“

Ég hef ekki gert lítið úr einu eða neinu hér. Ég er bara að vísa í það að við erum að skrapa botninn í PISA-könnununum. Og þið hafið svör við öllum þeim spurningum sem ekki tengjast því hvernig við getum bætt þá stöðu. Það er sagt, þetta eru félagslegir mælikvarðar, við verðum að horfa á aðra mælikvarða og þetta er svona og hinsegin. Við erum í alþjóðlegum samanburði í næstverstu stöðunni og þetta er skammarlegt.

Stærstu breytingar í manna minnum

„En Stefán. Ég er búinn að fara hér yfir þær aðgerðir sem eru að koma inn til þingsins. Ég var að kynna fyrr í þessari viku einhverja stærstu breytingu sem verið hefur í námsgagnaútgáfu í líklega einhver hundrað ár, ef haft er eftir þeim sem meðal annar sitja í stýrihópnum. við ætlum að tvöfalda þróunarsjóð námsgagna, Námsgagnasjóð. Þarna ertu með einn anga. Staðan er sú að þú verður að stíga inn með fjölþættum hætti til að ná fram breytingum á menntakerfinu. Mér finnst það ákveðin einföldun að það séu einvörðungu samræmd próf og mælikvarðar sem tengjast því sem geta hjálpað því.“

Það er enginn að halda því fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert