Nauðsynlegt að herða kröfur

Frá aðgerðum björgunarsveita í Breiðamerkurjökli í gærkvöldi.
Frá aðgerðum björgunarsveita í Breiðamerkurjökli í gærkvöldi. Ljósmynd/Landsbjörg

Félag fjallaleiðsögumanna telur rétt að rannsaka slysið sem varð í íshelli í Breiðamerkurjökli í gær með sama hætti og samgönguslys. Þá sé rétt að birta niðurstöðurnar opinberlega svo hægt sé að draga lærdóm af atburðinum og tryggja öryggi hellaferða enn betur, ekki síst á þessum árstíma.

Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins.

Varaformaður félagsins telur jafnframt að herða þurfi kröfur til fjallaleiðsögufólks.

Félagið kveðst harma slysið en varar jafnframt við því að fólk dragi víðtækar ályktanir um orsakir þess þar sem rannsókn þess sé enn í gangi. Segir félagið mikilvægt að bíða eftir niðurstöðum hennar.

Leggja áherslu á að mennta og þjálfa leiðsögumenn

Alls voru 23 í hópnum við íshellinn þegar slysið varð. Einn lést og annar er alvarlega slasaður. 

Í tilkynningunni segir að umræddur hópur ferðamanna og leiðsögufólkið hafi ekki verið á vegum félagsins.

„Félag fjallaleiðsögumanna er fagfélag sem leggur alla áherslu á að mennta leiðsögumenn og þjálfa svo þeir geti tekið upplýstar ákvarðanir með öryggi ferðafólks að leiðarljósi,“ segir í tilkynningunni.

Skilgreina þarf umgjörðina betur

Þá er jafnframt haft eftir Garðari Hrafni Sigurjónssyni, varaformanni stjórnar félagsins, að hann telji nauðsynlegt að herða kröfur til fjallaleiðsögufólks með tilliti til aukinnar menntunar og reynslu. Þá þurfi að skilgreina betur stjórnsýslulega umgjörð fyrir greinina, hvort sem það er utan eða innan þjóðgarðsins.

Telur félagið mikilvægt að huga að umgjörð ferða á fjöllum og jöklum á Íslandi. 

„[Þ]ar með talið leyfisveitingum þjóðgarða fyrir skipulagðar ferðir hópa með það að markmiði að efla eftirlitshlutverk þeirra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert