Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir rannsóknina á slysinu í Breiðamerkurjökli vera á frumstigi og því sé of snemmt að segja til um hvort einhver teljist sakhæfur. Hann telur það þó ólíklegt.
Ferðaþjónustufyrirtækið sem skipulagði ferð á Breiðamerkurjökul í gær veitti lögreglu rangar upplýsingar um fjölda ferðamanna í hópnum, sem leiddi til umfangsmikillar leitar sem stóð yfir þar til síðdegis í dag.
Bandarískt par varð undir ísfargi þegar það féll úr jöklinum. Lést annað þeirra.
Upphaflega tilkynnti fyrirtækið lögreglu að 25 manns hefðu verið í ferðinni og var því talið að tveggja erlendra ferðamanna væri saknað þar til í dag.
Stór hópur fólks tók þátt í að leita að ferðamönnunum en seinna kom í ljós að aðeins 23 voru í hópnum og því var enginn fastur undir ísnum.
Sveinn segir að engin ólögleg háttsemi hafi átt sér stað og að slysið hafi verið mistök. Hann leggur þó áherslu á að upplýsingaflæði og utanumhald hafi ekki verið nægilega gott, sem hafi leitt til leitarinnar.
„Ég geri ekki ráð fyrir því að fyrirtækið verði dregið til ábyrgðar fyrir þetta, en vissulega er þetta eitthvað sem þarf að gera betur og vanda betur skráningar þannig að þetta gerist ekki,“ segir Sveinn.
Hann nefnir að þó þurfi að vera á hreinu hver beri ábyrgðina, vilji þau sem urðu fyrir slysinu eða aðstandendur þeirra sækja rétt sinn.
„Það er spurning hvar ábyrgðin liggur,“ segir hann.
„Við erum búin að vera í skýrslutökum alveg síðan í gær, það er allt í gangi.“