„Rannsóknin stendur enn yfir og miðar ágætlega,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, í samtali við mbl.is. Eldri hjón fundust látin í heimahúsi í Neskaupstað á fimmtudag.
Maður sem er grunaður um að hafa orðið hjónunum að bana var handtekinn í Reykjavík og var úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald og einangrun.
Kristján Ólafur segir að til skoðunar séu tengsl mannsins við þau látnu.
„Þetta er hluti af því sem er verið að skoða núna og eins er verið að reyna að átta sig á tímalínu atburðarins bæði fyrir og eftir hann og með því að skoða og kalla eftir rafrænum gögnum,“ segir Kristján.
Þá segir hann að vinna sé í gangi að ræða við vitni sem gætu hugsanlega varpað ljósi á það sem átti sér stað.