Eldgosið sem braust út á Sundhnúkagígaröðinni á fimmtudagskvöld er það stærsta af þeim sex eldgosum sem nú hafa orðið í Svartsengiskerfinu frá því í desember.
Veðurstofan segir allar mælingar hafa sýnt fram á þetta, í nýrri tilkynningu.
Um er að ræða mælingar sem gerðar hafa verið á hraunbreiðunni hingað til og líkanreikningar sem áætla magn kviku sem fór úr Svartsengi yfir í Sundhnúkagígaröðina þegar gosið hófst.
Áfram gýs á svæðinu norðaustan við Stóra-Skógfell. Síðasta sólarhring hefur virknin einangrað sig nokkuð á einu svæði norðarlega á gossprungunni sem opnaðist fyrsta kvöldið.
Hraunið flæðir nú að mestu til norðvesturs í tveimur meginstraumum og hefur hægt verulega á framrás þess.
Gera megi ráð fyrir því að nú sé hraunflæði frá eldgosinu nokkrir tugir rúmmetra á sekúndu.
Nákvæmar mælingar hafi ekki enn verið gerðar á því en matið d´r byggt á samanburði við fyrri eldgos á svæðinu og sjónrænu mati á virkni í gígunum.
Í upphafi eldgossins er áætlað að hraunflæði hafi verið um 1.500-2.000 rúmmetrar. Er virknin í dag því einungis brot af því sem hún var í upphafi.