Stúlkan enn í lífshættu

Sextán ára piltur var í gærkvöld í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður …
Sextán ára piltur var í gærkvöld í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í gæsluvarðhald til 30. ágúst á grundvelli rannsóknarhagsmuna. mbl.is/Ólafur Árdal

Líðan stúlkunnar sem hlaut lífshættulega áverka í stunguárásinni við Skúlagötu á laugardagskvöld er óbreytt að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns miðlægrar rannsóknardeildar. Hún er enn í lífshættu.

Þrjú ungmenni urðu fyrir stunguárás og voru þau öll flutt á slysadeild og hlaut stúlkan lífshættulega áverka. Að sögn Gríms miðar rannsókn lögreglunnar á stunguárásinni eðlilega.

Sextán ára piltur var í gærkvöld í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í gæsluvarðhald til 30. ágúst á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Sökum ungs aldurs er pilturinn vistaður með viðeigandi hætti á meðan gæsluvarðhaldið varir og segir Grímur í samtali við mbl.is að það hafi verið gerð krafa um einangrun. Meðan sú staða sé uppi sé pilturinn vistaður í fangelsinu á Hólmsheiði.

Voru einhver tengsl á milli árásarmannsins og ungmennanna þriggja sem fyrir árásinni urðu?

„Það er hluti af því sem við erum að reyna að átta okkur á,“ segir Grímur en lögreglan hefur rætt við marga sem vitni urðu að árásinni sem og aflað sér frekari gagna í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert