„Þetta má ekki gerast“

Fjöldi þjóðþekktra Íslendinga styður baráttu Yazans og foreldra hans fyrir …
Fjöldi þjóðþekktra Íslendinga styður baráttu Yazans og foreldra hans fyrir að fá að dvelja áfram á landinu. Sólveig Arnarsdóttir leikkona stýrir samstöðufundi á Austurvelli á morgun og ræðir mál fatlaða drengsins við mbl.is. Samsett mynd

„Okkur sem myndum þennan hóp, sem kallar sig Vini Yazans, ofbauð einfaldlega að það ætti að vísa þessum unga dreng úr landi og ég held að margir upplifi að við séum komin að einhvers konar krossgötum,“ segir Sólveig Arnarsdóttir, leikkona og fundarstjóri annars samstöðufundarins fyrir palestínska drenginn Yazan Aburajab Tamimi sem íslensk stjórnvöld hyggjast gera brottrækan af landi.

Blæs hópurinn til samstöðufundarins klukkan 17:00 á morgun, þriðjudag, á Austurvelli.

Kærunefnd útlendingamála vísaði máli drengsins endanlega frá í júní eftir að fjölskyldan hafði sótt um alþjóðlega vernd við komuna til landsins í fyrra. Yazan og foreldrar hans millilentu á Spáni á leið sinni til Íslands, en þurftu vegna verkfalls að yfirgefa flugvöllinn sem hafði afdrifaríkar afleiðingar, þar með þurftu þau að skrá sig inn í landið og brottvísunarákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar urðu virk.

Á grundvelli hennar er íslenskum stjórnvöldum því kleift að vísa fjölskyldunni úr landi án þess að Útlendingastofnun taki mál hennar til efnislegrar meðferðar og hefur kærunefndin nú staðfest að Yazan og foreldrum hans skuli vísað úr landi.

Bundinn við hjólastól

Yazan er ellefu ára og þjáist af hrörnunarsjúkdómnum duchenne. Nú er svo komið að hann getur ekki gengið lengur, er bundinn við hjólastól og þarf mikla aðstoð við að lifa sínu daglegu lífi. Yazan og foreldrar hans, Moshen og Feryal Aburajab Tamimi, eru öll frá Hebron á Vesturbakkanum í Palestínu.

Sólveig Arnarsdóttir segir marga með böggum hildar vegna máls palestínska …
Sólveig Arnarsdóttir segir marga með böggum hildar vegna máls palestínska drengsins fatlaða sem íslensk stjórnvöld hafa synjað um vernd. mbl.is/Golli

Sólveig segir brottvísanir stjórnvalda orðnar margar og þær veki eftirtekt og athygli. „Ef ætlun okkar er að vísa ellefu ára gömlu barni frá Palestínu úr landi, sem er með hættulegan sjúkdóm – læknar hafa slegið því föstu að mikið rof á meðferð geti verið lífshættulegt –  ef okkur finnst forsvaranlegt að senda þennan dreng úr landi í trássi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Sáttmála um réttindi fatlaðs fólks, um börn á flótta og fatlað fólk á flótta, þá höfum við farið yfir einhverja línu,“ heldur fundarstjóri morgundagsins áfram.

Undir téða alþjóðasáttmála alla hafi íslensk stjórnvöld skrifað en þeim þyki engu að síður um að gera að vísa Yazan úr landi. „Þess vegna ofbýður mörgum núna, fólki er brugðið og ég heyri að fólk er miður sín, margir eru reiðir og sorgmæddir, þetta vekur mjög sterk viðbrögð,“ segir Sólveig.

Augljóst réttindabrot

„Öll reynum við að ala börnin okkar upp sem almennilegar manneskjur og kenna þeim að vera góð við þá sem þurfa aðstoð. Ein skilgreininganna á mennsku er að sýna samúð, samkennd og samhyggð með þeim sem raunverulega þurfa á aðstoð okkar að halda. Ég held að mörgum finnist það ekki bara sjálfsagt heldur líka skylda okkar. Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir: „Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar stjórnvöld gera ráðstafanir um hagi þess.“ Í þessu tilfelli er augljóst að verið er að brjóta á réttindum þessa drengs,“ segir leikkonan.

Hún segir íslenskum stjórnvöldum engin skylda bera til að senda Yazan úr landi, Dyflinnarreglugerðin boði stjórnvöldum ekki ófrávíkjanlega skyldu þótt þau hafi gripið til hennar margoft.

„Til að gera þetta allt enn þá ömurlegra var verkfall á flugvellinum þegar fjölskyldan millilenti á Spáni á leið til Íslands og  þeim því gert að yfirgefa flugvöllinn og þurftu þess vegna að skrá sig inn í landið sem ekki var ætlunin,“ segir Sólveig frá. Þar með hafi ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar orðið virk sem fyrr segir.

Standa í lappirnar sem manneskja

„Þetta vita íslensk stjórnvöld alveg. Unnið hefur verið að því leynt og ljóst að fá þessari ákvörðun snúið við en það hefur færst þannig harka í þessi mál að ég held að það séu ekki miklar líkur á að þessi drengur fái að vera hér. Þá hugsar maður með sér að maður geti ekki bara setið hjá, manni finnst maður verða að beita sér og standa í lappirnar sem manneskja,“ heldur Sólveig áfram og kveður það hreint óhæfuverk verði ákvörðun íslenskra stjórnvalda framfylgt.

Yazan þjáist af duchenne-heilkenni sem er skæður vöðvarýrnunarsjúkdómur.
Yazan þjáist af duchenne-heilkenni sem er skæður vöðvarýrnunarsjúkdómur. Samsett mynd

Aðkoma hennar að fundinum á morgun, og fyrri fundinum í sumar, er þannig til komin að Þorleifur Gunnlaugsson, forvígismaður hópsins sem berst fyrir því að drengnum fatlaða verði ekki vísað úr landi, hringdi í Sólveigu og bað hana að taka að sér fundarstjórnina.

 „Við erum eitt ríkasta land heims og mér finnst það bara skylda okkar að hjálpa til. Ég held að íslenskt samfélag verði bara betra fyrir vikið,“ segir hún.

Alls staðar sé verið að vísa fólki úr landi og um alla Evrópu er verið að reisa hærri og hærri varnarmúra gagnvart fólki sem stjórnvöld vilji ekki fá inn fyrir sín landamæri. „Viðbrögð stjórnvalda víða virðast vera að búa til einhvern sameiginlegan óvin sem hægt er að skella skuldinni á – það er þekkt í sögunni og ekkert nýtt og nú er þessi sameiginlegi óvinur útlendingar og íslensk stjórnvöld hafa stokkið á þann vagn.“

Rugl og andstyggileg orðræða

Sólveig segir umbyltingu hafa orðið í orðræðu tengdri þessum málaflokki. „Kannski er einna áhugaverðast að fylgjast með orðræðu Sjálfstæðisflokksins. Þegar Bjarni Benediktsson varð utanríkisráðherra var allt í einu sleginn einhver tónn þar, sem maður hafði ekki heyrt áður frá honum, og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra er að feta dyggilega í fótspor forvera síns, Jóns Gunnarssonar, og það á bara ekki að gefa neitt eftir,“ segir Sólveig.

Ótækt sé að gera þær örfáu manneskjur sem hér fá hæli ábyrgar fyrir því að innviðir landsins séu að hrynja. „Það er bara rugl og andstyggileg orðræða,“ segir Sólveig ákveðin og játar að hún reiðist ákaflega við að hugsa út í útlendingamálin.

Hún kveður smæð íslensks samfélags gera það að verkum að auðveldara sé að vekja máls á hitamálum samfélagsins. „Hér er auðveldara að ná í gegn, hvert og eitt okkar þekkir svo marga sem hægt er að virkja og það eru gríðarlega margir sem eru tilbúnir að beita sér í þágu góðs málstaðar,“ segir Sólveig og minnir á upphaf Pride-hátíðarinnar á sínum tíma þegar örfáar manneskjur gengu niður Skólavörðustíginn en fáeinum árum seinna séu Hinsegin dagar vikulöng hátíð sem öll þjóðin tekur þátt í. 

„Núna verðum við að virkja sem flesta til að beita sér gegn vaxandi útlendingaandúð,“ segir hún.

Yazan hefur búið hér á landi í rúmt ár en …
Yazan hefur búið hér á landi í rúmt ár en honum og fjölskyldu hans verður að öllum líkindum vísað úr landi á næstunni eftir að kærunefnd útlendingamála kvað upp endanlegan úrskurð sinn byggðan á ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Heldur í vonina

„Heilsu Yazan, andlegri og líkamlegri, hefur hrakað mjög. Hann liggur núna á spítala og andleg heilsa hans og foreldra hans er orðin mjög krítísk og alvarleg. Meira að segja þegar hann liggur á spítala fá foreldrar hans þær fréttir að enn sé verið að vinna að brottvísun,“ heldur Sólveig áfram.

Spurð út í lyktir málsins kveðst hún ekki ætla að gefa upp vonina. „Ég trúi ekki öðru en að dómsmálaráðherra sjái að sér og veiti Yazan landvistarleyfi því Yazan á heima hér,“ segir Sólveig Arnarsdóttir að síðustu, leikkona og fundarstjóri á Austurvelli á samstöðufundinum sem hefst klukkan 17:00 á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert