Þorvaldur: Óvenjulegt gos að ýmsu leyti

Kvikustrókarnir hafa verið óvenju stöðugir og öflugir.
Kvikustrókarnir hafa verið óvenju stöðugir og öflugir. Samsett mynd/Ólafur Árdal/Arnþór

Þorvaldur Þórðarson eld­fjalla­fræðipró­fess­or segir að eldgosið sem nú stendur yfir á Reykjanesskaga sé óvenjulegt að mörgu leyti og að ef fram heldur sem horfir gætu innviðir norður af gossvæðinu verið í hættu.

„Þetta er óvenjulegt gos að því leytinu til að virknin er eiginlega mest núna á norðurenda þessarar gossprungu sem hefur verið að elta gömlu Sundhnúkasprunguna. Þetta er í raun og veru gossprunga sem gaus fyrir 2.500 árum og nú er virknin komin í norðurenda þeirrar gosreinar,“ segir Þorvaldur í samtali við mbl.is.

Hann bætir við að það sem sé kannski helst óvenjulegt fyrir utan staðsetninguna sé hversu stöðug og öflug kvikustrókavirknin hefur verið fram til þessa.

75-150 metrar á hæð

„Þó svo að fjöldi kvikustróka fari fækkandi þá eru strókarnir ansi öflugir,“ segir Þorvaldur og bætir við að þeir nái líklega upp í 75-150 á hæð en það nemur einum til tveimur Hallgrímskirkjuturnum.

„Þetta bendir líka til þess að þessi kvika sé eitthvað gasríkari en kvikan sem hefur komið upp í fyrri gosum,“ segir Þorvaldur.

Þá segir hann að hraunið frá gosinu flæði nú til norðurs og þó að það afmarkist við óbyggð svæði eins og er geti það breyst.

„Það er umhugsunarefni ef þetta heldur áfram að flæða til norðurs. Þá er alveg möguleiki á að innviðir sem eru þarna norðan við eins og vatnsból Vogamanna og þeirra í Reykjanesbæ, jafnvel Reykjanesbrautin og kannski eitthvað meira, gæti hugsanlega orðið fyrir áhrifum af hraunflæði.“

Frá eldgosinu í dag.
Frá eldgosinu í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

Því fyrr því betra

Spurður hversu lengi gosvirknin þyrfti að halda áfram af þeim krafti sem er núna til þess að ógna umræddum innviðum segir Þorvaldur:

„Við vitum ekkert um það og það er nú það sem er stóra óvissan í þessu. Af því þetta er öðruvísi hegðun en hefur verið þá er erfitt að spá út frá samlíkingunni.

Við verðum bara að bíða og sjá hvað gerist en þetta er samt dálítið áhyggjuefni að virknin hefur færst þarna norður eftir og það er líka umhugsunarefni hversu bæði stöðugir og öflugir kvikustrókarnir eru búnir að vera eiginlega allan þann tíma sem þetta gos er búið að vera að standa yfir.“

Að lokum segir Þorvaldur að því fyrr sem gosinu ljúki því betra sé það fyrir alla.

„Svo lengi sem við erum með virkni í gígum þarna norður frá og hraunflæði frá þeim þá er alltaf möguleiki fyrir því að hraunið haldi áfram að stækka,“ segir Þorvaldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka