Tveir kvikustrókar stærstir

Eldgosið við Sundhnúkagíga.
Eldgosið við Sundhnúkagíga. mbl.is/Árni Sæberg

Virknin í gígunum í eldgosinu við Sundhnúkagíga hefur einangrað sig nokkuð í syðsta partinn á nyrsta hluta gossprungunnar frá því í gær.

Að öðru leyti er staðan á eldgosinu óbreytt, að sögn Ingibjargar Andreu Bergþórsdóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Enn eru nokkrir virkir kvikustrókar. Tveir virðast vera stærstir og síðan eru nokkrir minni þar í kring.

Hraun rennur að mestu leyti til norð-norðvesturs í tveimur meginstraumum en framrásin er mjög hæg.

Mengun á nærliggjandi svæðum

Spurð út í loftmengun segir Ingibjörg Andrea að vindáttin sé að snúast. Spáð er hægri breytilegri átt á gossvæðinu og því getur orðið vart við mengun á nærliggjandi svæðum á borð við Svartsengi, í Bláa lóninu og jafnvel Reykjanesbæ. Það mun koma betur í ljós þegar líður á daginn.

Engin skjálftavirkni hefur verið á svæðinu.

Hrina af smáskjálftum varð í kjölfar skjálftans upp á 3,2 stig austur af Kleifarvatni seint í gærkvöldi en eftir það róaðist allt, að sögn Ingibjargar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka